„Undanfarin 45 ár hefur mér liðið mjög illa yfir þessu og ég vona bara að hún geti fyrirgefið mér þessi hræðilegu mistök,“ segir hinn breski David Bassett og vísar til þess þegar hann sendi íslenska konu um tvítugt um borð í ranga lest í Skotlandi. Var þetta miðvikudaginn 12. júlí 1972.
Bassett hafði nýverið samband við Morgunblaðið í þeirri von að fá frásögn sína birta og freista þess þannig að nálgast konuna íslensku. Vill hann biðja hana afsökunar á lestarferðinni röngu fyrir 45 árum.
„Tvítugur hélt ég til Íslands í fyrstu utanlandsferð mína og átti ég þar dásamlegt tveggja vikna frí. Svo flaug ég frá Keflavík til Glasgow, þaðan sem ég tók að lokum lest heim til Liverpool,“ segir Bassett og bætir við að hann hafi hins vegar hitt unga íslenska konu, að líkindum um 18 ára gamla, í rútubíl á leið á lestarstöðina í Glasgow. Hún var í sinni fyrstu utanlandsferð og ætlaði að hitta vini sína í Edinborg, en þangað ætlaði hún með farþegalest.
„Vegna þess að hún var í fyrstu utanlandsferð sinni og hafði enga reynslu af lestum, því það eru jú engar lestir á Íslandi, bauðst ég til þess að hjálpa henni um borð í rétta lest,“ segir Bassett og heldur áfram: „Svo fór ég bara í mína lest og hélt af stað heim. En allt í einu áttaði ég mig á því að ég sendi stúlkuna um borð í kolvitlausa lest – hún fór að vísu til Edinborgar en ekki á þá lestarstöð þar sem vinir hennar biðu eftir henni. Mér finnst þetta alveg hræðilegt og vil endilega fá að biðja hana afsökunar á þessum ruglingi.“
Aðspurður segist Bassett ekki muna hvað íslenska konan heitir né heldur veit hann hvort vinirnir sem hún ætlaði að hitta í Edinborg séu íslenskir eða ekki. „Ég veit bara að það er ekki gott að þiggja ráð frá mér þegar viðkomandi er í fyrstu utanlandsferð sinni,“ segir Bassett og hlær við.
Fari svo að umrædd kona sjái þessi skrif eða fái spurnir af þeim er henni bent á að hafa samband við ritstjórn Morgunblaðsins með því að senda póst á ritstjorn@mbl.is.