Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að lögreglan sé með aukinn viðbúnað vegna landsleiksins í dag óháð því að ógn vegna hryðjuverka hafi aukist í Evrópu. Segir hann að þess verði gætt að allt fari friðsamlega fram og að lögreglan sé þegar komin með aukna gæslu í miðbænum og verði með mikinn mannskap í eftirliti þangað til eftir leikinn, eða þangað til ró sé komin yfir borgina.
Ásgeir vildi ekki gefa upp hvort aukinn viðbúnaður tengist komu stuðningsmanna Króatíu, en þegar liðin mættust í Króatíu í fyrri umferðinni voru engir áhorfendur leyfðir á leiknum vegna banns Evrópska knattspyrnusambandsins. Var bannið sett á vegna ítrekaðra óláta stuðningsmanna liðsins inni á vellinum í fyrri leikjum liðsins.
Í gær var greint frá því að vopnaðir sérsveitarmenn hefðu verið á vegum ríkislögreglustjóra við gæslu á Color run. Segir Ásgeir að bæði lögreglumenn frá ríkislögreglustjóra og öðrum embættum komi að löggæslu hér á landi og sérsveitarmenn séu hluti af löggæsluskipulagi landsins við stóra viðburði eins og í gær, á 17. júní, menningarnótt og í hinsegin göngunni. Það sé svo ákvörðun ríkislögreglustjóra hvernig hann láti búa sína menn á vakt hverju sinni.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskaði fyrr í ár eftir áhættumati vegna mannfrekra viðburða í sumar og segir Ásgeir að það hafi alveg verið ljóst í gær að lögreglan meðhöndlar nú lokanir öðruvísi en áður. Segir hann að lögreglan hafi verið með sýnilegri löggæslu á föstum póstum og þá hafi fjölmargir úr umferðadeild og almennri deild lögreglunnar verið við eftirlit í miðbænum.
Segir Ásgeir að lögreglan reyni á hverjum tíma að gera það sem hún geti með þann mannafla sem sé til staðar.
Meðal þess sem tekið var eftir í gær var að lögreglan notaði stærri flutningabíla til að loka ákveðnum götum vegna hlaupsins. Segir Ásgeir að lokanir sem séu fastar fyrir hafi verið í umræðunni hjá lögreglunni í nokkurn tíma og tengist ekki bara mögulegri hryðjuverkaógn. Bendir hann á að þegar margir Íslendingar komi að harmónikkulokunum keyri þeir beint framhjá þeim, „því þeir telja sig þurfa að fara þangað,“ segir Ásgeir.
Með föstum lokunum segir Ásgeir að verið sé að passa gangandi umferð betur, meðal annars fyrir bílstjórum sem hafi áður troðist inn á lokuð svæði. Segir hann að fleira geti komið upp á en ásetningur um að valda skaða, svo sem slys og veikindi. Í slíkum tilfellum telji lögreglan að fastar lokanir séu betri en þær eldri.