Hillurnar í Costco að tæmast

Brett segir hillurnar í Costco ekki verða svona tómlegar undir …
Brett segir hillurnar í Costco ekki verða svona tómlegar undir venjulegum kringumstæðum. mbl.is/Hanna

„Við fáum mikinn fjölda gáma í vikunni og munum fylla hillurnar af vörum. Meðlimir geta því andað léttar,“ segir Brett Vigelskas, verslunarstjóri Costco hér á landi. Vöruúrvalið í versluninni hefur minnkað töluvert síðustu daga og sumar hillur eru alveg að tæmast, enda hafa viðtökur Íslendinga farið fram úr björtustu vonum.

Hins vegar er von á gámasendingu til landsins á þriðjudagskvöld og Brett gerir ráð fyrir að fyllt verði á hillur verslunarinnar alla næstu viku, fyrir utan laugardaginn, 17. júní, en þá er lokað.

Viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum og hillurnar bera …
Viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum og hillurnar bera þess merki. Júlíus Eyjólfsson

„Skipinu með gámunum var því miður seinkað um einn sólahring, en við erum búin að skipuleggja okkur vel fram í tímann og munum tæma gámana hratt og örugglega og fylla allar hillur.“

Þrátt fyrir tómlegar hillur segist Brett ekki upplifa að viðskiptavinir verði fyrir vonbrigðum. „Ég er búinn að vera hérna á gólfinu alla vikuna og hef talað við meðlimi. Mín upplifun er sú að langflestir sýni þessu skilning. Margir hafa komið hingað nokkrum sinnum frá því að við opnuðum og vita hvernig ástandið hefur verið. Það er brjálað að gera hjá okkur frá opnun til lokunar og því óhjákvæmilegt að einhverjar vörur klárist. Fólk er bara spennt fyrir næstu viku, þegar vörurnar byrja að streyma inn,“ segir Brett hlæjandi og það fer ekki á milli mála að hann hefur gaman af íslensku viðskiptavinunum.

Vöruúrvalið er ekki alveg jafngott í dag og það var …
Vöruúrvalið er ekki alveg jafngott í dag og það var í upphafi. Bætt verður úr því í vikunni. Júlíus Eyjólfsson

Brett segir augljóst að Íslendingar kunni vel að meta verðlagið og vöruúrvalið í Costco. „Fólk upplifir að það sé að spara og það er spennt yfir því. Það eru góðar fréttir fyrir bæði okkur og viðskiptavinina. Við hlökkum til að koma hasarnum aftur á fullt skrið í vikunni.“

Aðspurður segist Brett vissulega hafa gert ráð fyrir að viðtökur Íslendinga yrðu góðar. Hann hafi hins ekki búist við alveg svona miklum og stöðugum hasar. „Það er nokkuð augljóst að við áttum ekki von á alveg svona góðum viðtökum. Undir venjulegum kringumstæðum væru hillurnar ekki svona tómlegar. Við látum það helst ekki gerast. Við getum hins vegar lagað það mjög fljótt, sem betur fer. Sýnið okkur bara smá skilning,“ biðlar Brett kíminn til Íslendinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert