Börnin vinna í hita og ryki

Í Bangladess er afar mikið um að börn vinni erfiðisvinnu.
Í Bangladess er afar mikið um að börn vinni erfiðisvinnu.

Alþjóðlegur dagur gegn barnaþrælkun er í dag en nærri 170 milljónir barna vítt og breitt um veröldina eru föst í barnaþrælkun, með alvarlegum afleiðingum. Sigríður Thorlacious heimsótti múrsteinaverksmiðju í Bangladess fyrir dag rauða nefsins hjá UNICEF og hitti kornung börn sem vinna dagana langa í miklum hita og ryki við að framleiða múrsteina og fá greiddar um 200 krónur á dag fyrir stritið.

Mbl.is frumsýnir hér söguna úr verksmiðjunni.

Sigríður fór til Bangladess að kynna sér starf UNICEF og heimsforeldra fyrir dag rauða nefsins. Í Bangladess er afar mikið um að börn vinni erfiðisvinnu. Síðan heimsókn Sigríðar átti sér stað, í múrsteinaverksmiðjuna í útjaðri Dhaka sem er höfuðborg Bangladess, hafa UNICEF og yfirvöld á svæðinu hafið viðræður um uppbyggingu á barnvænu svæði á staðnum. Heimsóknin hefur þannig þegar haft áhrif.

UNICEF rekur fjölmörg barnvæn svæði, bæði í Bangladess og vítt og breitt um heiminn. Þetta eru svæði þar sem börn geta komið og fengið að vera börn, leikið sér í öruggu umhverfi og oftar en ekki fengið margvíslega menntun. Barnvænu svæðin eru rekin með stuðningi heimsforeldra og er ætlað að ná til barna sem flýja stríð og náttúruhamfarir en einnig barna sem vinna erfiðisvinnu. Þau koma þá á barnvænu svæðin hluta úr degi og geta fengið að vera börn. Mörg þeirra nota einnig tækifærið og reyna að ná upp því sem þau hafa misst úr skóla vegna vinnu sinnar.

Á degi rauða nefsins síðastliðinn föstudag bættust fleiri en 1.850 nýir heimsforeldrar í hópinn hjá UNICEF á Íslandi. Fjölmargir sem þegar eru heimsforeldrar hækkuðu einnig framlögin sín. Viðtökurnar voru frábærar og enn er hægt að skrá sig á heimasíðu UNICEF á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert