Þjóðaröryggisráð fundar á öryggissvæðinu í Keflavík

Frá fyrri fundi þjóðaröryggisráðs.
Frá fyrri fundi þjóðaröryggisráðs. mbl.is/Rax

Þjóðaröryggisráð mun funda á öryggissvæði Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli klukkan 14:15 í dag. Dagskrá fundarins verður ekki kynnt fyrir fram en í samtali við mbl.is segir Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og formanns ráðsins, að staðsetning fundarins komi til vegna þess að svæðið uppfylli öryggiskröfur.

Þá kvaðst Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, sem jafnframt á sæti í ráðinu, ekki vera búinn að kynna sér efni fundarins í samtali við mbl.is nú rétt fyrir hádegi.

Vænta má að aukinn viðbúnaður vegna nýlegra hryðjuverkaárása í nágrannaríkjum verði til umræðu á fundinum. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur furðað sig á því að al­menn­ingi hafi ekki verið til­kynnt um auk­inn viðbúnað lög­reglu fyrir fram og hyggst taka málið upp á fundi þjóðaröryggisráðs á eftir.

Fast sæti í þjóðaröryggisráði eiga forsætisráðherra sem formaður ráðsins, utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra og ráðuneytisstjórar ráðuneytanna þriggja, tveir þingmenn, annar úr þingflokki sem skipar meirihluta á þingi en hinn úr þingflokki minnihluta. Þá sitja í ráðinu forstjóri Landhelgisgæslunnar, ríkislögreglustjóri og fulltrúi Landsbjargar. Einnig getur þjóðaröryggisráðið kallað til aðila til tímabundinnar setu í ráðinu vegna einstakra mála.

Spurð hvort einhverjir aðrir en þeir sem fast sæti eiga í ráðinu hafi verið kallaðir fyrir fundinn segjast hvorki Svanhildur né Guðlaugur Þór vita að svo stöddu hvort svo sé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert