Andrés Ingi Jónsson, fulltrúi Vinstri grænna í allsherjar- og menntamálanefnd, hefur óskað eftir fundi í nefndinni í þessari viku til að ræða þróun löggæslumála. Óskar Andrés Ingi eftir fundinum í ljósi frétta undanfarinna daga um aukinn vopnaburð lögreglu.
„Það er nú aðallega bara til að fá upplýsingar um þessar ákvarðanir og hvað liggur að baki,“ segir Andrés Ingi í samtali við mbl.is, spurður um ástæður þess að hann óski eftir fundinum. „Það er ákveðin eðlisbreyting að vopnaðir sérsveitarmenn séu bara á götum úti en ekki bara til taks ef á þarf að halda og eitthvað sem mér finnst alveg ástæða til þess að ræða í þinginu.“
Vísar hann þar til þess að lögregla hafi í tvígang um helgina staðið vopnaðan vörð á fjölmennum samkomum á höfuðborgarsvæðinu um helgina, í Litahlaupinu svokallaða á laugardag og á leik Íslands og Króatíu í knattspyrnu karla í gærkvöld.
Spurður segir Andrés Ingi það hafa komið sér í opna skjöldu að heyra það í fréttum um helgina að lögregla hafi búist vopnum. Umræðu um vopnaburð lögreglu sé ábótavant og hún þurfi að eiga sér stað, ekki síður í þinginu, að mati Andrésar Inga. Óskað er eftir því að auk nefndarinnar verði innanríkisráðherra, ríkislögreglustjóri, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúar Reykjavíkurborgar boðaðir á fundinn.
Fleiri þingmenn úr röðum Vinstri grænna hafa einnig kallað eftir frekari umræðu um málið. Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, sem einnig á sæti í þjóðaröryggisráði, hefur lýst yfir undrun vegna lítillar umræðu um aukinn viðbúnað og vopnaburð lögreglu og hyggst taka málið upp á fundi þjóðaröryggisráðs sem fram fer á öryggissvæðinu í Keflavík á eftir.
Þá hefur Steinunn Þóra Árnadóttir, sem einnig er þingmaður Vinstri grænna, sagt „mjög hættulegt sýndaröryggi“ vera fólgið í því að fjölga vopnuðum lögreglumönnum.