Í meira en hálfa öld hefur Gísli Auðunsson læknir tekið á móti og sinnt sjúklingum. Stærstan hluta þess tíma á Húsavík en hann kom þangað til starfa árið 1966, þá tiltölulega nýútskrifaður læknir.
„Ég lauk prófi árið 1964 og byrjaði þá mitt kandídatsár eins og það er kallað. Það var síðan haustið 1966 sem ég fór hingað norður til Húsavíkur og fagnaði því 50 ára starfsafmæli mínu hér síðastliðið haust,“ segir Gísli í Morgunblaðinu í dag en bendir þó á að hann hafi starfað í fjögur ár erlendis meðan hann var í sérfræðinámi.
Allt á sinn tíma og segir Gísli komið að því að leggja hlustunarpípuna á hilluna enda orðinn áttræður að aldri og hefur í nægu að snúast á jörð sinni í Kelduhverfi.
„Ég á þar ágætis spildu og hef sinnt skógrækt í að verða tuttugu ár á henni, þ.e. starfað sem skógarbóndi. Núna gefst mér tími til að sinna því í fullu starfi,“ segir Gísli sem gekk sinn síðasta stofugang á sjúkrahúsinu á Húsavík í gær.
Spurður hvort það eigi eftir að freista hans að grípa í læknasloppinn aftur og hitta sjúklinga segist Gísli ekki óttast að hann eigi afturkvæmt í læknastarfið.
„Það er margs að sakna úr starfinu en ég er kominn á þann aldur að það er orðið erfiðara fyrir mig að fylgjast með öllum nýjungum. Þetta er orðinn langur og góður starfsferill sem ég kveð sáttur.“