Víkingasverð líklega frá 9. eða 10. öld fannst í bátskumli á Dysnesi við Eyjafjörð. Sverðið lá á botni báts og er mjög illa farið enda er bátskumlið mikið raskað vegna ágangs sjávar. Annarri hlið bátsins hefur skolað á brott með sjónum og því mikið happ að sverðið fannst.
Á morgun verður það grafið upp að fullu og því lyft úr jörðu. Sverðið lá rétt undir grasinu sem eru ekki ákjósanlegar aðstæður fyrir varðveislu. Þetta var því tímaspursmál hvenær því hefði skolað á haf út.
Rúv greindi fyrst frá þessu í útvarpsfréttum sínum.
„Þetta sverð er því miður ekki eins vel varðveitt og það síðasta sem fannst sem var lyft upp í heilu lagi úr jörðinni,“ segir Hildur Gestsdóttir sem stýrir uppgreftinum á Dysnesi. Hún vísar til sverðs frá tíundu öld, sem fannst í landi Ytri-Ása í Skaftafellssýslu í september í fyrra og hefur verið til sýnis í Þjóðminjasafninu.
Uppgröftur í Dysnesi hófst í síðustu viku.
Sverðið er með málmhjöltum og að öllum líkindum var einnig eitthvert lífrænt efni á því til dæmis viður eða leður sem hefur grotnað niður.
Bátskumlið er á svokölluðum kumlateig á nesinu sem þýðir að nokkur kuml séu á þessu svæði. Annað kuml hefur einnig fundist á svæðinu og í því fundust mannabein og hundabein. Ekki var óalgengt á víkingaöld að fólk væri heygt með skepnum sínum eins og til dæmis hrossum.
„Það var mikið happ að það var hægt að bjarga þessu,“ segir Rúnar Leifsson, minjavörður Norðurlands eystra. Hann telur líklegt að eitthvert fyrirmenni hafi átt sverðið og bátinn enda ekki á færi hvers manns að vera heygður með slíkum gripum á víkingaöld.
Mögulega eru fleiri minjar á svæðinu og er verið að rannsaka þær núna.Rúnar bendir á að ein helsta áskorun minjaverndar í dag sé að sporna gegn ágangi sjávar og landbrots. Í því samhengi bendir hann á að Minjastofnun vill að ráðist verði í heildstæða skráningu á strandlengju Íslands svo unnt sé að meta ástand strandminja. Með því yrði hægt að meta hverju væri hægt að bjarga og hverju ekki. „Eins og staðan er núna erum við að tapa fornleifum í sjóinn,“ segir Rúnar.
Minjastofnun Íslands fer fram á uppgröftinn sem er í höndum Fornleifastofnunar Íslands sem framkvæmir verkið.