„Ég þyrfti að fara að bera undir KSÍ hvort ég geti ekki flutt lagið á Laugardalsvelli,“ segir þýski tónlistarmaðurinn Klaus Pfreundner sem leitar að þýðanda og söngvara til að flytja lag til heiðurs víkingaklappinu sem stuðningsmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gerðu frægt á Evrópumótinu síðasta sumar.
Klaus er liðsmaður í ábreiðuhljómsveitinni (e. cover band) Radspitz. Hann varð hugfanginn af víkingaklappinu eftir að hafa séð þúsundir hrópa „húh!“ í kór á heimkomufögnuði íslenska landsliðsins eftir Evrópumótið. Stuttu síðar gaf hljómsveitin út lagið Iceland Call sem var hennar fyrsta frumsamda lag.
„Krafturinn var ótrúlegur og gaf mér mikinn innblástur. Ég lét reyna á klappið eftir að hafa spilað á tónleikum og það svínvirkaði. Um nóttina velti ég fyrir hvernig ég gæti gert þetta að lagi og daginn eftir fór ég í stúdíóið.“
Fyrsta útgáfan var á þýsku en eftir að hafa fengið góð viðbrögð frá íslensku stuðningsmönnunum þýddi hann textann ensku sem gaf enn betri raun.
„Þegar við gáfum út þýska lagið sendi ég myndbandið með tölvupósti á KSÍ til gamans. Myndbandið var síðan sett á á Facebook-síðu samtakanna og vakti mikla athygli. Margir höfðu samband við mig og báðu mig um að koma til landsins.“
Klaus kom til Íslands til að horfa á viðureignina gegn Tyrkjum í vetur og frumflutti ensku útgáfuna fyrir stuðningsmennina á krá þar sem þeir söfnuðust saman fyrir leik. Honum var aftur boðið að koma fyrir viðureignina gegn Króatíu á sunnudaginn og endurtók leikinn með stuðningsmönnum við góðar undirtektir. Nú vill hann taka lagið á næsta stig.
„Ég þyrfti að fara að bera undir KSÍ hvort ég geti ekki flutt lagið á Laugardalsvelli. Við erum með hugmynd um að þýða lagið á íslensku og fá einhvern til að flytja það. Nú leitum við að fullkomnum söngvara og fullkominni textaþýðingu.“
Þeir sem hafa áhuga á að veita Klaus liðsinni geta haft samband gegnum netfangið liveline-musikagentur@t-online.de. Að neðan má sjá lagið fræga.