Beiðni um lögbann í fyrramálið

Frá mótmælum íbúanna fyrr í dag.
Frá mótmælum íbúanna fyrr í dag. mbl.is/Eggert

„Lögbannsbeiðni á framkvæmdirnar verður lögð fram í fyrramálið,“ segir Ólafur Karl Eyjólfsson, lögmaður íbúanna við Rauðagerði sem fyrr í dag efndu til mót­mæla við fram­kvæmd­ar­svæði fyr­ir­hugaðs hjóla- og göngu­stígs við Rauðagerði og Miklu­braut. Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu og Vinnu­eft­ir­lit var kallað til en með mót­mæl­un­um tókst íbú­um að stöðva fram­kvæmd­ina. 

Ólafur bendir á að erindi með athugasemdum við framkvæmdina verður einnig sent skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar. Íbúar eru ósáttir við framkvæmdir á svæðinu sem þeir segja að séu án þeirra samþykkis. Ásamt því að leggja göngu- og hjóla­stíg ráðger­ir Reykja­vík­ur­borg að bæta við strætóak­rein, reisa hljóðmön og hefja fram­kvæmd­ir í tengsl­um við Borg­ar­línu. 

Samþykkt í apríl 2016

Ólafur bendir á að þessi framkvæmd hafi verið samþykkt hjá borginni í apríl 2016  og framkvæmdaleyfi, sem venjulega er gefið út á sama tíma, var gefið út mánuði síðar. Hins vegar hefjast framkvæmdir ekki fyrr en ári síðar. Framkvæmdaleyfi gildir í 12 mánuði frá því það er veitt. 

„Þetta ferli sem Reykjavíkurborg fór í, úrvinnsla á athugasemdum íbúanna var ekki nógu góð. Það voru teknir nokkrir fundir og það var ekki samtal heldur eintal,” fullyrðir Ólafur. Hann bendir einnig á að frá því að íbúum hafi verið kynnt niðurstaða deiliskipulags á svæðinu hafi því verið margoft breytt meðal annars eftir fundi Reykjavíkurborgar með verktökum. „Það er ómögulegt fyrir íbúana að fylgjast með öllum breytingum því það er búið að fara með tillöguna í allar áttir og án samráðs við íbúana. Þeir hefðu þurft að vera í fullri vinnu við að fylgjast með öllum breytingunum,” segir Ólafur.

Hann tekur fram að vilji íbúanna standi alltaf til að bæta hljóðvist á svæðinu eins og þeir hafi bent á í fjölda ára. Raunin er hins vegar sú að ef hljóðmönin sem fyrirhuguð er að verði reist mun ekki bæta hljóðvist. Þvert á móti eykst umferð á svæðinu og mikil breyting verður á  umhverfinu í kjölfarið, að sögn Ólafs. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að miðað er við að hljóðvist nái niður í 55 desibil eða minna með hljóðmöninni. 

Undirskriftarlisti frá 72 íbúum árið 2013 

Forsögu framkvæmdanna á svæðinu má rekja til ársins 2013, en þá barst borginni undirskriftalisti 72 íbúa þar sem skorað var á að framkvæmdir á hljóðmön milli Miklubrautar og Rauðagerðis hæfist. Eftir það var hafist handa að frumdrögum að nýrri mön og stígum. Tveir almennir fundir voru með íbúum árin 2014 og 2015. „[O]g varð góð samstaða um þá tillögu sem nú verður framkvæmd. Eftir samþykkt deiliskipulags fyrir svæðið í umhverfis- og skipulagsráði þann 1. júlí 2015 var íbúum á svæðinu sent bréf þar sem þeim var kynnt niðurstaðan,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.   

Eftir það var haft samráð við húseigendur sem eiga lóðir næst framkvæmdinni og kannaður möguleiki á að færa göngu- og hjólastíga lengra frá húsunum. „Einungis reyndist hægt að færa þá til framan við tvö hús. Áningarstaður verður settur í bið og er ekki lengur inn í þessari framkvæmd. Aukið verður við gróður á milli lóða og göngu- og hjólastíga. Einnig verður hægt að setja inn á völdum stöðum girðingar milli lóða og göngu- og hjólastíga,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Framkvæmdin er í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert