Held að fólki misbjóði vinnubrögðin

Jóhannes Rúnar Jóhannsson.
Jóhannes Rúnar Jóhannsson. Ljósmynd/Aðsend

Jóhannes Rúnar Jóhannsson hæstaréttarlögmaður segist hafa fengið góð viðbrögð við ákvörðun sinni um að höfða mál gegn íslenska ríkinu vegna skipunar í embætti dómara við Landsrétt.

„Ég held að fólki almennt í samfélaginu misbjóði þessi vinnubrögð, ef ég á að dæma út frá þeim viðbrögðum sem ég hef fengið,“ segir Jóhannes Rúnar í samtali við mbl.is.

Auðveld ákvörðun 

Hann segir að ákvörðunin um að höfða mál hafi ekki verið erfið. „Satt best að segja var hún tekin fyrir nokkru síðan. Það er ekki með gleði í hjarta sem maður tekur ákvörðun af þessu tagi. Þetta er alls ekkert fagnaðarefni. Í mínum heimi eiga stjórnvöld að fylgja lögum. Þau eiga að koma fram við borgarana á sanngjarnan og málefnalegan hátt. Að mínu mati brugðust stjórnvöld þessum skyldum sínum í þessu tiltekna máli. Það er ekki hægt að sitja undir því þegjandi og hljóðalaust.“

Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður hafði áður höfðað mál gegn ríkinu eftir að dómsmálaráðherra skipti út fjórum umsækjendum sem dómnefnd hafði áður lagt til að yrðu dómarar við Landsrétt. Jóhannes Rúnar kveðst hafa tekið ákvörðun sína sjálfur og hafi ekki ráðfært sig fyrst við Ástráð, þó svo að þeir séu kollegar og þekkist.

Hann kveðst jafnframt ekki vita hvort hinir tveir umsækjendurnir sem ráðherra skipti út ætli að fara sömu leið og þeir.

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur mbl.is

Með sama lögmann og Ástráður

Mál Jóhannesar Rúnars gegn ríkinu er byggt upp á sama hátt og mál Ástráðs, enda nota þeir sama lögmanninn. Málið er þrískipt, í fyrsta lagi snýst það um ógildingakröfur, í öðru lagi um viðurkenningu á bótaskyldu vegna mögulegs fjártjóns og í þriðja lagi er þar krafa um miskabætur, auk málskostnaðar.

Upphæð miskabótanna sem hann fer fram á er sú sama og Ástráður krefst, eða ein milljón króna.

Stefnan var send til héraðsdóms í dag og á dómurinn eftir að taka afstöðu til þess hvort fallist verði á beiðni um flýtimeðferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert