82 einstaklingar sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi í maí. Samanlagður fjöldi umsókna á fyrstu fimm mánuðum ársins var 370. Það eru tæplega 60% fleiri umsóknir en bárust á sama tíma á síðasta ári.
Þetta kemur fram á vef Útlendingstofnunar.
Þar kemur enn fremur fram, að 50 einstaklingar höfðu sótt um vernd 14. júní og því sé heildarfjöldi umsókna það sem af er ári 420. Fjölgunin samanborið við árið 2016, bendi enn til þess að fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd á árinu geti orðið á bilinu 1.700 til 2.000.
Þá segir, að umsækjendur í maí hafi verið af 17 þjóðernum. Flestir komu frá Albaníu (29) og Írak (12), nánari upplýsingar um þjóðerni umsækjenda eru á tölfræðisíðu vefjarins. 46% umsækjenda komu frá ríkjum Balkanskagans. 78% umsækjenda voru karlkyns og 22% kvenkyns. 82% umsækjenda voru fullorðnir og 18% yngri en 18 ára. Þrír umsækjendur kváðust vera fylgdarlaus ungmenni.
Niðurstaða fékkst í 122 mál í maímánuði. 34 umsóknir voru teknar til efnislegrar meðferðar en þar af voru 12 mál afgreidd í forgangsmeðferð. 37 mál voru afgreidd með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, 5 umsóknum var synjað vegna þess að umsækjendur höfðu þegar fengið vernd í öðru ríki og 46 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka eða hurfu.
22 þeirra 34 mála sem tekin voru til efnislegrar meðferðar lauk með ákvörðun um synjun og tólf með ákvörðun um veitingu verndar, viðbótarverndar eða dvalarleyfis af mannúðarástæðum. Flestar veitingar voru til umsækjenda frá Írak (6) en flestir þeirra sem fengu synjun komu frá Makedóníu (7) og Albaníu (5).