Jökullinn logar vinnur til verðlauna

Frá leik Íslands og Englands á EM í fyrra.
Frá leik Íslands og Englands á EM í fyrra. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Vorum að fá þær frábæru fréttir að Jökullinn logar var valin besta myndin á kvikmyndahátíðinni í New York,“ skrifar Sævar Guðmundsson, kvikmyndagerðarmaður og leikstjóri heimildarmyndarinnar Jökullinn logar, á Facebook-síðu sinni.

Myndin, sem fjallar um uppgang knattspyrnuiðkunar á Íslandi og vegferð íslenska karlalandsliðsins á leiðinni á EM, vann í gær Golden Whistle-verðlaunin sem veitt eru árlega á kvikmyndahátíðinni K+S Soccer í New York. Myndin var sýnd á opnunarkvöldi hátíðarinnar en á ensku ber hún titilinn „Inside a Volcano.“

Þau Sölvi Tryggvason, Kristín Ólafsdóttir og Sævar Guðmundsson eru fólkið …
Þau Sölvi Tryggvason, Kristín Ólafsdóttir og Sævar Guðmundsson eru fólkið á bak við myndina. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Inside a Volcano fjallar um það sem við elskum mest við íþróttir og kvikmyndir – litla manninn sem stendur uppi sem sigurvegari, sameiginlega vegferð, baráttu sem á sér engin mörk,“ segir Rachel Markus, einn stofnenda og stjórnandi hjá K+S, í umsögn sinni um myndina.

„Sævar og hans teymi fengu ótrúlegan innanbúðaraðgang og sýndu fram á aðdáunarverðan metnað leikmanna. Og á hinn bóginn. Í gegnum myndina komumst við í einstakt návígi og öðlumst sýn inn í persónuleika liðsins sem er orðið hnattrænt fyrirbæri. Hún er djúp, eitilhörð, fyndin og greinilega verðug til að vinna Golden Whistle-verðlaunin í ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka