Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segir mögulegt að íbúar bæjarins verði orðnir um 50 þúsund árið 2030, ef áætlanir ganga eftir. Íbúar Kópavogs eru nú rúmlega 35 þúsund og fer fjölgunin nærri íbúafjölda Akureyrar.
Meðal nýrra byggingarsvæða er Vatnsendahvarf. Þar eru nú meðal annars fjarskiptamöstur á hæðinni. Kópavogur er nú að semja við ríkið um hluta þess svæðis, en áætlað er að í Vatnsendahvarfi gætu búið 1.000 íbúar í 400 íbúðum.
Ármann segir í Morgunblaðinu í dag að lögð verði áhersla á sérbýli í þessu fyrirhugaða hverfi. Það hafi enda skapast mikill skortur á sérbýli í Kópavogi og verið slegist um lausar lóðir.
Skuldir Kópavogsbæjar, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum til lengri tíma, voru rúmlega 242% af tekjum bæjarins árið 2010. Hlutfallið var komið niður í rúmlega 146% í fyrra og segir Ármann stefnt að því að það verði komið undir 100% á næstu fimm árum.
Hann segir bæinn hafa aukið þjónustu en lækkað skatta.