Púsla saman kirkju í Reyðarfirði

Kirkjan hefur vakið mikla athygli.
Kirkjan hefur vakið mikla athygli. Ljósmynd/Pétur Kovácik

Á laugardaginn verður ný kirkja í Reyðarfirði vígð en það eru bræður úr kapúsína-munkareglunni sem standa að baki byggingu hennar. Hafa þeir síðustu tvö árin unnið að uppbyggingu kirkjunnar en uppruni hennar er frekar óvenjulegur.

Kirkjan var byggð í Slóvakíu í þeim tilgangi að flytja hana til landsins. Var hún þá tekin í sundur og send í þremur gámum til Íslands þar sem munkarnir hafa unnið hörðum höndum við að setja hana aftur saman. „Þetta var eins og að púsla,” segir Pétur Kovácik, einn bræðranna.

Ástæðan fyrir byggingu kirkjunnar segir Pétur að hafi verið skortur á plássi, en þegar er í klaustrinu þeirra á Kollaleiru kapella sem rúmar um 25 manns. Þar sem söfnuðurinn fer ört stækkandi var því brýn þörf á stærri kirkju en hann nær yfir allt Austurland. Kemur fólk meðal annars frá Eskifirði, Neskaupstað og Fáskrúðsfirði til messu í Reyðarfirði. Er nýja kirkjan með sætapláss fyrir 50 manns.

Kirkjan hefur sérstakan stíl en hún er byggð úr timbri og er samansett af bjálkum sem hver er um 35 sentímetrar í þvermál. Segir Pétur að kirkjan líkist timburhúsum sem meðal annars má finna í Kanada og Slóvakíu. Er hún því nær einstök á Íslandi, en svipaða kirkju er að finna á Hólum.

Eru þeir í óða önn að leggja lokahönd á kirkjuna fyrir vígsluna á laugardaginn sem fram fer klukkan 11.00 á Kollaleiru í Reyðarfirði og er hún opin öllum. 

Hefur kirkjan nú þegar vakið athygli heimamanna auk ferðamanna sem taka gjarnan myndir af henni.

Frá byggingu kirkjunnar.
Frá byggingu kirkjunnar. Ljósmynd/Pétur Kovácik
Ljósmynd/Pétur Kovácik
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka