Samið um kaup á St. Jósefsspítala

St. Jósefsspítali í Hafnarfirði. Húsið hefur staðið autt í nokkur …
St. Jósefsspítali í Hafnarfirði. Húsið hefur staðið autt í nokkur ár. mbl.is/Ófeigur

Hafnarfjarðarbær hefur gert kaupsamning við ríkið um kaup á St. Jósefsspítala. Kaupsamningurinn verður lagður fram á bæjarstjórnarfundi í næstu viku en drög að honum voru kynnt á bæjarstjórnarfundi í morgun.   

„Þetta er mjög ánægjulegt. Það hefur verið keppikefli að koma starfsemi þarna inn aftur eftir að starfsemi lagðist af í húsnæðinu fyrir fimm árum,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar. Frá því að starfsemi spítalans var færð yfir til Landspítalans fyrir fimm árum hefur húsnæðið staðið autt. 

Aðspurð hvort kaupverðið sé 100 milljónir króna, eins og kom fram í frétt Rúv um málið, vildi Rósa ekki staðfesta það. Íslenska ríkið á 85 prósenta hlut á móti 15 prósenta hlut bæjarins.

Spítalinn var byggður 1926 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Samkvæmt skipulagi bæjarins er gert ráð fyrir samfélagslegri þjónustu í húsnæðinu. Hvers konar þjónusta verði veitt þar á enn eftir að koma í ljós. 

„Við munum skipa starfshóp fljótlega sem mun vinna hratt og vel að því að koma fram með ýmsar hugmyndir að starfsemi í húsinu,“ segir Rósa og tekur fram að allt sé opið í þessum efnum.   

Húsið hafði verið á sölu fyrir nokkrum árum en engin ásættanleg tilboð bárust í það. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert