Veitingahús í Slysavarnahúsið

Grandagarður 14. Svona lítur húsið út í dag, áður en …
Grandagarður 14. Svona lítur húsið út í dag, áður en því verður breytt. Tölvumyndir/Trípólí-arkitektar

Borgarráð hefur samþykkt að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Örfiriseyjar vegna lóðar nr. 14 við Grandagarð. Á lóðinni stendur hús sem Slysavarnafélag Íslands reisti upp úr miðri síðustu öld.

Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir nýrri timburbryggju fyrir gesti fyrirhugaðs veitingastaðar á 1. og 2. hæð hússins. Bryggjuna á að nýta til útiveitinga. Utan á timburbryggjunni er gert ráð fyrir flotbryggju sem Slysavarnafélagið Landsbjörg mun hafa aðgang að. Nú er rekið lítið kaffihús í austurenda 1. hæðar, Café Retro.

Fram kemur í deiliskipulagstillögu, sem unnin er af Jóni Davíð Ásgeirssyni, arkitekt hjá Trípólí arkitektum, að húsið var reist fyrir Slysavarnafélag Íslands eftir teikningum Gísla Halldórssonar arkitekts frá 1958-1959. Húsinu var svo breytt eftir teikningum Teiknistofunnar hf. árið 1998 þar sem m.a. stóru dyragati hafnarmegin í húsinu var lokað, en það hafði verið nýtt til að hífa björgunarbáta inn í tveggja hæða rými í SA-hluta hússins. Gatinu var lokað með bogadregnum vegg með tíu gluggum og lítilli iðnaðarhurð og var sett létt gólf þar sem áður var gat í gólfplötu 2. hæðar. Fyrrnefnt tveggja hæða rými sé því ekki lengur til staðar.

Veitingasalur með útsýni

Gert er ráð fyrir að endurvekja fyrrnefnda stóru opnun á húsinu sunnanmegin með því að rífa bogadregna vegginn frá 1998 og þess í stað setja upp glerflöt á sama stað og upphaflegi hurðarflekinn var. Þá er létta gólfið frá 1998 rifið og upphaflega 2ja hæða rýmið endurvakið. Gert er ráð fyrir veitingarekstri á 1. og 2. hæð hússins og mun 2ja hæða rýmið og svalir umhverfis það nýtast sem veitingasalur með útsýni yfir höfnina. Til þess að opna veitingastaðinn á jarðhæð betur gagnvart götu eru gluggar austan megin við aðalinngang gerðir gólfsíðir.

Nýja bryggjan. Eftir breytingarnar getur fólk notið veitinga utandyra.
Nýja bryggjan. Eftir breytingarnar getur fólk notið veitinga utandyra. Tölvumyndir/Trípólí-arkitektar

Veitingastaðurinn skal vera opinn almenningi allan daginn a.m.k. frá hádegi og ekki er heimilt að byrgja fyrir glugga. Grjótvörn verði gerð sýnileg með lýsingu og inndregin frá húsi að hluta til. Efni og handrið bryggjunnar verða í samræmi við þau efni sem eru í bryggju við Sjóminjasafn, Grandagarði 8. Bryggjan skal vera opin almenningi allan sólarhringinn og ekki er heimilt að loka henni.

Í umsögn Minjastofnunar Íslands segir að vegna aldurs falli húsið ekki undir ákvæði laga um menningarminjar. Húsið hafi hins vegar mikið varðveislugildi sem dæmi um vel hannaða byggingu með skýrum höfundareinkennum. Það sé að mörgu leyti einstakt vegna gerðar sinnar og staðsetningar.

Minjastofnun segir að í tillögu Trípólí séu dregin fram mikilvæg sérkenni sem settu svip sinn á húsið í upphafi. Beytingar á útliti hússins og innri skipan séu hannaðar af tillitssemi við byggingarlist hússins. Stofnunin leggur ríka áherslu á að ekki verði hróflað við steinhleðslu hafnargarðsins, sem friðlýstur var árið 2012.

Öflugt mannlíf á Grandanum

Gríðaleg fjölgun veitingastaða hefur orðið á Grandagarði á undanförnum árum. Nú þegar eru reknir þar tíu veitingastaðir.

Þegar sólin skín flykkist fólk í ísbúðina Valdísi. Mikið líf …
Þegar sólin skín flykkist fólk í ísbúðina Valdísi. Mikið líf er á svæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeir eru veitingahúsin Matur og drykkur og Sjávarréttabarinn, brugghúsið Bryggjan, Víkin kaffihús í Sjóminjasafninu, veitingastaðurinn Coocoo's Nest, Kaffivaginn, kaffihúsið Retro, veitingahúsið Bergsson RE, tehúsið Kumiko og veitingahúsið í Marshall-húsinu. Að auki er þarna að finna sérverslanir, kökuhúsið Sautján sortir, kjötverslunina Matarbúið og ostaverslunina Búrið. Að ógleymdri ísbúðinni Valdísi. Nú er verið að innrétta pitsastað þar sem Texasborgarar voru áður.

Aðstaða til útiveitinga á sumrin verður sífellt vinsælli í borginni. Nú þegar er slík aðstaða fyrir hendi hjá Bryggjunni, Víkinni og Kaffivagninum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert