Minjastofnun Íslands telur að fyrirhuguð uppbygging nýrra stúdentaíbúða á lóð Gamla Garðs á Hringbraut 29 feli í sér veruleg og neikvæð umhverfisáhrif þar sem listrænt mikilvægri skipulagsheild verði raskað með óafturkræfum hætti.
„Það eru mjög fá dæmi um það í skipulagssögu Reykjavíkur að svona stórt stofnanasvæði hafi frá upphafi verið mótað með ákveðna listræna heildarsýn í huga og alla tíð síðan hafi menn virt þá grunnþætti. Þannig hafa menn ekki raskað skeifunni fyrir framan Háskóla Íslands né sérkennum svæðisins í kring,“ segir Pétur H. Ármannsson, sviðstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Minjastofnunar, í Morgunblaðinu í dag.
Í áliti Minjastofnunar sem sent hefur verið Reykjavíkurborg segir að með fyrirhugaðri uppbyggingu austan við Gamla Garð muni framhlið hússins hverfa að mestu á bak við nýbyggingar. Við það raskist mikilvæg og einstæð skipulagsheild í borgarmynd Reykjavíkur.