Ekki sjálfgefið að fá uppreist æru

Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, segir það ekki sjálfgefið að menn fái uppreist æru jafnvel þótt þeir uppfylli tiltekin lagaleg skilyrði.

Hún hefði tekið mál Roberts Downey, sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson, til sérstakrar skoðunar hefði hún fengið það upp í hendurnar núna. Bjarni Bene­dikts­son, for­sæt­is­ráðherra, var starf­andi dóms­málaráðherra þegar Downey óskaði eftir uppreist æru en Bjarni seg­ist ekki hafa átt aðkomu að mál­inu.

Sigríður kveðst vera með á borði sínu samskonar mál frá einstaklingi sem hefur afplánað dóm vegna kynferðisafbrots.

„Það liggur fyrir á mínu borði umsókn um uppreist æru frá einstaklingi sem hefur afplánað dóm vegna kynferðisafbrots sem ég hef látið liggja í einhvern tíma. Ég hef viljað skoða þessi mál heildstætt því mér finnst ekki sjálfgefið að allir fái uppreist æru jafnvel þótt þeir uppfylli tiltekin lagaleg skilyrði,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Bundinn af áratugavenju

Sigríður tekur fram að ráðherra sé bundinn af áratugavenju sem hefur myndast í málum sem þessum og af ákveðnum jafnræðisreglum.

„Ég tel hins vegar að ráðherra sé ansi þröngur hvað þetta varðar. Hafi menn sannfæringu fyrir því að þessu þurfi að breyta held að það þurfi að koma til löggjafans í þessum efnum,“ segir hún og telur að Alþingi þyrfti þá að fjalla um málið og eftir atvikum breyta lagaákvæðum hvað uppreist æru varðar.

„Það má líka velta fyrir sér af hverju er verið að óska eftir uppreist æru. Mér sýnist það í mörgum tilvikum vera gert til að geta öðlast þau borgaralegu réttindi sem fólk hefur misst með dómi. Það kann að vera ákveðin leið að breyta þeim reglum. Frekar en að veita fólki uppreist æru yrði því veitt borgaraleg réttindi.“

Skilur sjónarmiðin

Að sögn Sigríðar sótti Robert Downey sjálfur um að fá uppreist æru hjá dómsmálaráðuneytinu, eins og lög kveða á um. Þar þarf meðal annars að skila nægilega mörgum meðmælendum og uppfylla ákveðinn tímafrest. Hún segir að ráðuneytið fái alla jafna stöðugan straum af slíkum umsóknum. Uppfylli menn skilyrðin hafi það verið þannig í „marga áratugi“ að menn fái uppreist æru.

Hún kveðst skilja vel það sjónarmið að Robert eigi ekki að fá að snúa aftur í starf sitt sem lögmaður eftir að hafa gerst sekur um kynferðisbrot. Hún nefnir að um lögmannsstörf gildi sérstakar reglur. Lögmenn missi réttindi sín brjóti þeir af sér.

„Það er skiljanlegt og ekki sjálfgefið að mínu mati að menn fái lögmannsréttindi aftur að tilteknum tíma liðnum. Þarna vegast á þau sjónarmið að mönnum sé ekki gert að taka út refsingu alla ævi. Ég held að Íslendingar vilji ekki hafa það öðruvísi en að þeirra refsingu sé lokið þegar þeir hafa afplánað dóm. Að mínu mati ber að hafa það í huga að menn fái ekki uppreist æru þar með,“ segir hún.

Sigríður bætir við að kynferðisafbrotamönnum séu settar skorður þegar kemur að starfsvettvangi eftir að þeir hafi afplánað dóma, meðal annars varðandi störf með börnum. „Það er líka sjónarmið að velta fyrir sér hvort það sé eðlilegt að menn taki til lögmannsstarfa aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert