Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segist skilja gremjuna eftir að dæmdur kynferðisbrotamaður fékk uppreist æru í gær. Hann bendir þó á að hann taki ekki ákvörðun um uppreist æru, hún sé tekin annars staðar í stjórnkerfinu. „Svo fær sú ákvörðun formlega staðfestingu mína en það er ekki ég sem tek ákvörðunina, stjórnarathöfnin er ekki mín enda er ég ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum samkvæmt stjórnarskrá,“ segir Guðni við mbl.is.
Fyrir níu árum var Róbert Árni Hreiðarsson, sem kallar sig nú Robert Downey, dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum. Brotin voru framin á árunum 2005 og 2006. Róbert tældi þrjár af stúlkunum með blekkingum og peningagreiðslum til kynferðismaka við sig, en þær voru þá 14 og 15 ára. Hann komst í samband við stúlkurnar í gegnum netið og í flestum tilvikum sagðist hann vera táningspiltur. Greiddi hann einni stúlkunni að minnsta kosti 32 þúsund krónur fyrir kynferðismök í tvö skipti, sem áttu sér stað í bifreið Róberts.
Forseti veitti Róberti uppreist æru í september samkvæmt tillögu frá innanríkisráðherra.
„Þeir sem hafa afplánað dóm og þurfa og vilja sækja um uppreist æru senda bréf um það til ráðuneytis, dómsmálaráðuneytis. Með því bréfi senda þeir ýmsar upplýsingar, fylgigögn og meðmæli og svo er ákvörðun tekin þar um uppreist æru eða ekki. Þar er stjórnarathöfnin tekin,“ segir forsetinn.
Guðni bendir á að hann hyggi að aldrei hafi til þess komið að forseti hafi neitað beiðni um uppreist æru.
Guðni segist lengi hafa talað um nauðsyn þess að í stjórnarskrá og stjórnskipan okkar sé bætt úr þeim annmarka að í orði kveðnu eru forseta falin ákveðin völd og hlutverk en í raun og veru eru þau völd, þau hlutverk og þær ákvarðarnir liggja annars staðar.
„Þegar forseta hverju sinni berast skilaboð frá ráðuneyti þá fylgja, eins og í þessu tilfelli, engin gögn, engin fylgiskjöl, engin rökstuðningur, heldur er búið að taka ákvörðunina. Ég læ henni formlega staðfestingu.“
Hann segir að umrætt mál sé átakanlegt fyrir fórnarlömb Róberts. „Það er eingöngu átakanlegt erfitt og sorglegt fyrir fórnarlömb þessa dæmda brotamanns; að þurfa núna að þola upprifjun í fjölmiðlum á þessu máli og vel skiljanlegt að fólk beini spjótum sínum að mér,“ segir forsetinn og bendir á, sér til varnar, að svona er stjórnskipun landsins.
„Ef það á að vera þannig að forseti segi af eða á um uppreist æru eða náðanir og annað slíkt þá verður það að vera þannig að fólk sæki um slíkt hingað, sem það gerir alls ekki. Það verður þá að vera þannig líka að hér sé nefnd sérfróðra reyndra embættismanna og lögfræðinga sem fari yfir málið. Sú er alls ekki raunin heldur er umsóknum um uppreist æru beint á allt annan stað í stjórnkerfinu, ráðuneyti dómsmála, og þar er svo ákvörðun tekin hvort beiðni um uppreist æru skuli samþykkt á grundvelli laga sem um það gilda.“
Hann segir að í réttarríki eigi það ekki að vera þannig að vald til að veita uppreist æru eða náðun sé bundið geðþótta eins mans. „Það er mín afstaða til þessa máls og mér þykir auðvitað ömurlegt að þurfa að tengjast því. Ég verð að fá að árétta að það er vegna þess að forminu til ber forseta að staðfesta stjórnarathafnir sem hann er ábyrgðarlaus á.“
Aðspurður segist Guðni vel skilja gremjuna og reiðina sem blossað hefur upp vegna þess máls. „Ef við ætlum að láta gremjuna og reiðina verða til einhvers gagns þá væri það í fyrsta lagi að vona og vinna að því að fórnarlömbin fái aukin styrk. Enda hef ég heyrt að þau hafi staðið sig einstaklega vel eftir þá glæpi sem á þeim voru framdir. Í öðru lagi þurfum við þá að ræða hvort ekki sé ástæða til að endurskoða lög og ákvæði um uppreist æru. Í þriðja lagi held ég áfram að gera það sem ég gerði í forsetaframboði og eftir að ég tók við embætti forseta; að benda á nauðsyn þess að við skýrum betur völd og verksvið forseta svo fólk í landinu þurfi ekki að halda að forseti, einn og óstuddur, geri ákveðna hluti sem hann gerir ekki í raun. Um leið að forseti, ég og þeir sem á eftir mér koma, þurfi ekki að vera í þeirri stöðu að staðfesta formlega með undirskrift sinni ákvarðanir annarra samkvæmt lögum.“