Þegar Robert Downey, sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson, fékk uppreist æru í september síðastliðnum var Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, starfandi dómsmálaráðherra. Hann segist ekki hafa átt aðkomu að málinu. Þetta kemur fram í viðtali við hann á RÚV.
Róbert, sem fékk uppreist æru, hefur fengið lögmannsréttindi sín að nýju. Fyrir níu árum var hann dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum sem voru þá 14 og 15 ára.
Bjarni segist hafa tekið við niðurstöðu úr ráðuneytinu sem hafði fengið sína hefðbundnu meðferð. Bjarni var starfandi dómsmálaráðherra meðan Ólöf Nordal var í veikindaleyfi.
Bjarni bendir á að lögin sem fjalla um hvernig staðið er að uppreist æru séu ekki ný. Í því samhengi vísar hann til þess að lög á Íslandi gera ótvírætt ráð fyrir því að menn geti aftur fengið uppreist æru þrátt fyrir að hafa hlotið alvarlega dóma ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt. Þar með geta þeir endurheimt ýmis borgaraleg réttindi.
Fyrr í dag sagðist Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, skilja gremjuna eftir að dæmdur kynferðisbrotamaður hefði fengið uppreist æru í gær. Hann bendir þó á að hann taki ekki ákvörðun um uppreist æru, hún sé tekin annars staðar í stjórnkerfinu.