Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur að Faxaflóahafnir hafi sýnt verulega óvarkárni gagnvart náttúru og lífríki Hvalfjarðar og sýnt íbúum við fjörðinn yfirgang með stóriðjustefnu sinni á Grundartanga í tengslum við fyrirhugaða byggingu á sólarkisilverksmiðju Silicor Materials.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Umhverfisvaktin hefur sent frá sér. Þar er niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur fagnað, en á föstudag felldi dómstóllinn úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að Silicor Materials þurfi ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar starfsemi á Grundartanga við Hvalfjörð.
„Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur er umhverfi og náttúru í hag því í henni felst viðmið um hver eigi að njóta vafans. Einnig felst í niðurstöðunni skýlaus krafa um vandvirkni af hálfu opinberra aðila í ákvarðanatöku, krafa sem aðrar stofnanir sem höndla með mál tengd umhverfi og afleiðingum mengunar ættu einnig að taka til sín,“ segir í yfirlýsingunni.
Umhverfisvaktin segir ennfremur, að undanfarin ár hafi Skipulagsstofnun heimilað framleiðsluaukningu stóru iðjuveranna, Elkem og Norðuráls á Grundartanga án þess að fram þyrfti að fara mat á umhverfisáhrifum hennar. Tveim nýjum mengandi iðjuverum, Kratus og GMR, hafi verið komið á fót án þess að fram færi mat á umhverfisáhrifum þeirra.
„Skýring Skipulagsstofnunar hefur verið sú, að breytingar sem um var að ræða hefðu ekki teljandi umhverfisáhrif miðað við þá mengun sem fyrir væri. Þessi afstaða stofnunarinnar virðist fela í sér að það sé í lagi að bæta sífellt við mengandi starfsemi á svæðinu, svo fremi sem það sé gert í smáum skrefum í einu. Umhverfisstofnun lenti síðar í verulegum vandræðum með GMR sem uppfyllti engan veginn sett skilyrði um m.a. mengunarvarnir, eins og kunnugt er. Við því reyndist fátt hægt að gera og fékk fyrirtækið að menga nær óáreitt þar til það lagði upp laupana – á kostnað náttúru og íbúa í nágrenninu.“
Þá segist Umhverfisvaktin áður hafa bent á hversu lítið sé vitað um framleiðsluferli tilraunaverksmiðju Silicor Materials og undrast hversu fulltrúar sveitarstjórna sem eigi hlut í Faxaflóahöfnum hafi verið ginkeyptir fyrir verksmiðju sem enginn viti í raun og veru hvernig verði starfrækt, „enda hefur komið í ljós að ennþá er Silicor Materials að þróa framleiðsluna, þó allt hafi átt að vera frágengið fyrir löngu.“
Þá segir Umhverfisvaktin, að hún hafi ítrekað bent á að stóriðja eigi ekkert erindi inn í landbúnaðarhérað. Hvalfjörður sé auk þess náttúruperla sem öll þjóðin geti verið stolt af, vinsælt útvistarsvæði sem beri skilyrðislaust að hlífa við eiturefnum sem fylgja mengandi stóriðju.
„Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur að Faxaflóahafnir hafi sýnt verulega óvarkárni gagnvart náttúru og lífríki Hvalfjarðar og sýnt íbúum við fjörðinn yfirgang með stóriðjustefnu sinni á Grundartanga og mál sé að linni. Faxaflóahafnir skýli sér á bak við Umhverfisstofnun sem á að sjá um vöktun umhverfisins en staðreyndin sé sú að iðjuverin sjálf sjái um allt utanumhald umhverfisvöktunarinnar og með því móti sé hún ekki hlutlaus, heldur þeim í vil. Úrræði Umhverfisstofnunar til að stoppa af þá sem ekki fylgja starfsleyfi eru því miður mjög bitlaus og sparlega notuð. Umhverfisvaktin telur að alls ekki eigi að bæta við fleiri stóriðjuverum á Grundartanga en setja eigi þeim iðjuverum sem fyrir eru mun strangari skorður um losun eiturefna,“ segir í yfirlýsingunni.