Ökumanni bíls sem lögreglan veitti eftirför frá Reykjavík til Selfoss í morgun, og endaði í Ölfusá, hefur verið bjargað úr ánni. Maðurinn var með meðvitund þegar hann kom á land og er nú á leið með sjúkrabíl til Reykjavíkur. Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Selfossi, í samtali við mbl.is. Vel gekk að ná manninum úr bílnum, að sögn Odds.
Bíllinn mun hafa lent á grynningum í ánni sem gerði björgunarstörf auðveldari. Maðurinn komst út úr bílnum af sjálfsdáðum og upp á þak bílsins, þaðan sem honum var bjargað.
Aðdragandinn var sá að sérsveit Ríkislögreglustjóra, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og lögreglan á Suðurlandi veittu ökutæki eftirför úr Reykjavík fyrr í morgun, en eftirförinni lauk við Ölfusá fyrir skömmu. Bílinn lenti í ánni og björgunarsveitir voru kallaðar til aðstoðar á vettvangi.
Samkvæmt heimildum mbl.is tóku að minnsta kosti sjö lögreglubílar, tvö lögreglumótorhjól og tveir sjúkrabílar þátt í aðgerðinni.