Gengur það upp að vera netgrínisti samtímis því að vera varaþingmaður er spurning sem Andri Þór Sturluson, varaþingmaður Pírata, þarf nú að spyrja sig eftir að hugmynd hans um að hringja í og teppa Neyðarlínuna með tilkynningar um vopnaða lögreglumenn mætti hörðum viðbrögðum almennings. Í samtali við mbl.is segir hann hugmyndina hafa verið setta fram í gríni á „Pírataspjallinu“ en hún hafi ekki verið nógu klikkuð til að fólk áttaði sig á því að um grín væri að ræða.
Hann hefur í gegnum tíðina hent fram ýmsum klikkuðum hugmyndum að hans sögn, sem eiga það sameiginlegt að eiga litla tengingu við raunveruleikann. Þær gangi hins vegar miklu lengra svo almenningur og fjömiðlar átti síg á því að þar sé um grín að ræða, en ekki núna.
Nefnir hann sem dæmi að banna mjólk eða að byggja Reykjavíkurflugvöll neðanjarðar. Hann segir þessa hugmynd greinlega ekki eins fjarstæðukennda, sem útskýri hvers vegna fólk taki hann trúanlegan fyrir henni. „Það finnst þetta ekki öllum algjör vitleysa,“ segir Andri Þór en bætir þó við að honum þyki fjölmiðlaumfjöllunin undarleg þar sem enginn tæki þátt í svona áhlaupi á Neyðarlínuna.
„Ég reyni að horfa á hlutina leitandi, með opnum huga og frá ólíkum sjónarhornum. Og þó ég komi með punkt endurspeglar hann ekki eina skoðun,“ segir Andri Þór. „Hlutirnir verða að meika sense [sic]. Við þurfum að ræða hlutina, eins og að mótmæli teppi viðbragðstíma lögreglumanna,“ segir Andri Þór en það var meðal þess sem hann sagði í umræðum um upphaflegt innlegg hans á Facebook, að mótmæli yrðu til þess að lengja viðbragðstíma lögreglu þar sem hluti lögregluliðs yrði undirlagt undir að fylgjast með og sinna mótmælum.
Andri Þór er ritstjóri vefsíðunnar Sannleikans sem er eins konar háðsádeila á samfélagið. „Sannleikurinn er spegill á samfélagið og kemur með punkta sem geta meikað sense [sic], og það er þá bara ýkt. Síðan fær fólk til að hugsa af hverju okkur finnst það sem okkur finnst. Síðan er stundum ögrandi og stundum fyndin fyrir suma. Og svo er allur gangur á því hvernig til tekst,“ segir Andri Þór.
En hvenær ertu þá í hlutverki varaþingmannsins Andra Þórs og hvenær ertu Andri Þór ritstjóri Sannleikans?
„Þá erum við komin í aðra áhugaverða pælingu. Að vera grínisti og varaþingmaður á kannski ekkert saman. Það er eitthvað sem ég þarf að taka afstöðu til og eðlilegt að ég velti fyrir mér,“ segir Andri Þór.
Í 5. grein laga um samræmda neyðarsvörun segir að refsing einstaklinga sem verða uppvísir að því að senda vísvitandi ranga tilkynningu til samræmdrar neyðarsvörunar eða misnota að öðru leyti þjónustu hennar varði við 120. grein og 120. grein a. almennra hegningarlaga.
Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag það mikilvægt að almenningur sýndi mikilvægi þjónustunnar skilning og valdi ekki truflun á henni. „Iðulega skiptir hver mínúta máli í viðbragði þannig að aðgerð sem felur í sér að teppa símalínur Neyðarlínu getur valdið alvarlegu heilsutjóni eða dauða.“