Ökumaðurinn sem reyndi að flýja undan lögreglu í gær með þeim afleiðingum að mikil hætta skapaðist á Suðurlandsvegi er laus úr haldi lögreglu. Þetta staðfestir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi.
Maðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna en hann sinnti ekki stöðvunarboðum þegar Reykjavíkurlögreglan hugðist athuga með ökuréttindi hans í Reykjavík. Maðurinn lagði á flótta og veitti lögreglan honum eftirför til Selfoss þar sem bifreið mannsins hafnaði í Ölfusá.
Guðmundur Páll segir mikla hættu hafa skapast á þjóðveginum þar sem ökumaður bifreiðarinnar hafi ekið mjög háskalega. Lögregla reyndi að stöðva för mannsins með naglamottum auk þess sem sérsveitarbíll ók utan í bifreið mannsins á hringtorgi við Hveragerði. Þær tilraunir báru ekki árangur og var það ekki fyrr en maðurinn sá vegatálma lögreglu við Ölfusárbrú að hann ók ofan í ána.
Bíllinn fór öfugur í ána að sögn Guðmundar Páls og er það því mikið mildi að ökumaðurinn hafi komist lífs af, hvað þá að sleppa með nokkrar skrámur. Maðurinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar í fylgd lögreglu eftir að honum var bjargað upp úr ánni, og í kjölfarið fluttur til skýrslutöku hjá lögreglu þaðan sem honum var sleppt í gær.
Að sögn Guðmundar Páls er nú unnið að því að fara yfir upptökur úr lögreglubílunum og önnur gögn í málinu áður en lögð verður fram ákæra. Einhverjar skemmdir urðu á bifreiðum lögreglunnar við eftirförina, m.a. urðu skemmdir á einum sérsveitarbílanna sem komu nýir til landsins fyrr á árinu.