Brottfall pilta úr skólum áhyggjuefni

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Michael Green, forstjóri Social Progress Imperative (SPI), segir Norðurlöndin öll deila sama áhyggjuefni. Það er hátt hlutfall brottfalls ungra pilta í efri bekkjum grunnskólanna á Norðurlöndum.

 „Þrátt fyrir að Norðurlöndin skari fram úr og séu öll á topp tíu listanum þegar á heildina er litið, er hlutfall brottfalls ungra pilta í efri bekkjum grunnskólanna á Norðurlöndum sérstakt áhyggjuefni, sem ég held að menntayfirvöld í löndunum hljóti að taka til sérstakrar athugunar og gaumgæfa, hvað hægt er að gera, til þess að stemma stigu við þessari þróun,“ segir Green.

Niðurstöður SPI í rannsóknum stofnunarinnar voru kynntar í dag.

Hann kveðst einnig telja það eftirtektarvert, þegar rýnt er í niðurstöður mismunandi landa hversu miklu betur Ísland standi sig en Danmörk þegar kemur að heilsu og heilbrigði.

Green vekur einnig athygli á því að Ísland komi ekki vel út úr þættinum umhverfisgæði, sem hafi komið honum á óvart.

Danmörk er í fyrsta sæti 128 ríkja heims samkvæmt vísitölu félagslegra framfara – VFF, sem stofnunin Social Progress Imperative (SPI), reiknar út. Fast á hæla Danmerkur koma hin Norðurlöndin, Finnland í öðru sæti, Ísland og Noregur deila þriðja sætinu og í áttunda sæti er Svíþjóð.

Morgunblaðið spurði Michael Green  í gær hvað kæmi honum mest á óvart í niðurstöðum rannsóknanna:

„Þótt almennt megi segja að ríkari þjóðir skori hærra í félagslegum framförum en fátækari þjóðir, er það samt sem áður ekki fullkomlega almenn regla.

Það eru lönd á listanum, eins og Kosta Ríka sem er ekki með háa landsframleiðslu á mann en stendur sig næstum jafnvel og Ítalía, eitt af G 7 ríkjunum. Kosta Ríka er í 28. sæti og Ítalía er í 24. sæti.

Annað dæmi eru Bandaríkin, sem eru ríkasta þjóðin í G 7, en þau eru í 18. sæti listans sem varla getur talist glæsileg frammistaða,“ sagði Green.

„Ef stjórnvöld í hverju landi hugsa aðeins um aukinn hagvöxt og aukna landsframleiðslu (GDP) og vinna bara út frá því, þá eru þau einfaldlega ekki á réttri braut. Það er ekki hægt að móta stefnu til framtíðar án þess að leggja ríka áherslu á félagslegar framfarir, meðfram áherslu á aukinn hagvöxt,“ sagði Green.

 Til hamingju Ísland

Hann segir það ánægjulegt hversu hátt skor Ísland fær í rannsókninni.

„Til hamingju Ísland. Ísland er áfram alveg við toppinn, í þriðja sæti ásamt Noregi. Því hljóta Íslendingar að fagna og jafnframt því hvað það munar litlu á efstu þjóðunum, Dönum, Finnum, Íslendingum og Norðmönnum. Þið eruð í fyrsta sæti á heimsvísu hvað varðar umburðarlyndi og aðgengi, sem er auðvitað til stakrar fyrirmyndar. Þá finnst mér það vera afar ánægjulegt að það séu ekki bara Norðurlöndin sem eru á topp tíu listanum yfir félagslegar framfarir, því þarna eru lönd eins og Sviss, Kanada, Holland, Ástralía og Nýja Sjáland einnig. Og Írland, Bretland, Þýskaland og Austurríki koma fast á hæla þeirra,“ sagði Green.

Rannsókn SPI í samvinnu við Harvard Business School og MIT í 128 ríkjum hefur staðið undanfarin fjögur ár. Meðal þátta sem mælingar SPI á vísitölu félagslegra framfara taka til eru hvernig ríkin standa sig í að uppfylla grunnþarfir mannsins, hverjar eru forsendur velferðar í ríkjunum og hvaða tækifæri bjóðast íbúum ríkjanna.

Ísland kemur á flestum sviðum mjög vel út í rannsóknum SPI, ef undanskildir eru þættirnir umhverfisgæði og húsnæði á viðráðanlegu verði.

Ísland er í 25. sæti ríkjanna 128 þegar umhverfisgæðin eru rannsökuð, en í fyrsta sæti þegar umburðarlyndi og aðgengi er rannsakað, undir liðnum tækifæri.

Í frétt SPI þar sem sérstaklega er fjallað um Ísland segir m.a.: „Ísland er í fyrsta sæti allra landanna þegar kemur að umburðarlyndi og aðgengi. Mismunun og ofbeldi gagnvart minnihlutahópum mælist minnst á heimsvísu.

Ísland er einnig í fyrsta sæti þegar kemur að umburðarlyndi gagnvart trúarbrögðum og landið býður einnig upp á kröftugt samfélagslegt öryggisnet.

Ísland er í fimmta sæti á heimsvísu þegar skoðað er aðgengi að upplýsingum og samskiptum, sem að hluta til má rekja til þess að hlutfall þeirra, sem nota netið, er hvergi hærra en á Íslandi, 98%. Einnig er það vegna mikillar farsímaeignar Íslendinga, en á Íslandi eiga hverjir 100 Íslendingar 100 farsíma.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert