Ný flugstöð í Vatnsmýrinni verður í færanlegum húsum. Þetta segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Þannig að það sé einfalt að flytja þau á nýjan stað,“ segir hann spurður út í yfirlýsingu Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra um að vonir standi til að framkvæmdir við nýja flugstöð í Vatnsmýrinni hefjist á næsta ári.
Að sögn Dags kemur þessi ákvörðun samgönguráðherra um uppbyggingu við flugvöllinn í Vatnsmýrinni ekki sérstaklega á óvart. „Þetta hefur legið fyrir síðan 2013. Þá var gert samkomulag milli ríkis og Reykjavíkurborgar um að það mætti bæta aðstöðu fyrir farþega í innanlandsfluginu og var skipulaginu breytt í þá veru,“ segir Dagur.
Að undanförnu hafa þó öll áform um uppbyggingu verið stopp, m.a. vegna þess að samkvæmt núverandi áætlunum borgarinnar verður flugbrautum vallarins lokað eftir fimm ár og sjö ár.
Í núgildandi samningi ríkis og borgar er gert ráð fyrir að ISAVIA reki nýju flugstöðina, að nýju byggingarnar verði færanlegar og að norður/suður-flugbrautinni verði lögð af árið 2022. Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Air Iceland Connect sagði í samtali við Morgunblaðið fyrr á árinu að innanlandsflugi verði sjálfhætt verði brautinni lokað þar sem innanlandsflug verði ekki rekið með einni braut. Árið 2024 er svo áformað að loka austur-vestur brautinni samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar.
Dagur leggur ríka áherslu á að kostir flugvallar í Hvassahrauni verði fullkannaðir og að þeirri könnun verði komið í markvissari farveg. Vísar hann til þess að Rögnunefndin, sem starfaði á árunum 2013 til 2015, hafi sagt mikla samstöðu um flugvallarrekstur þar, hjá ríki og borg, flugrekstraraðilum og fulltrúum landsbyggðarinnar. „Í mínum huga er ekki eftir neinu að bíða með að setja það í markvissari farveg,“ segir Dagur. „Það hefur verið hik á ríkinu, að mínu mati.“
Uppbygging flugvallar í Hvassahrauni gæti hins vegar haft áhrif á helsta vatnsverndarsvæði Suðurnesja. Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Björgólfur Jóhannesson, forstjóri Icelandair, að félagið hafi frá upphafi vitað það frá upphafi að vatnsvernd gæti reynst hindrun í vegi flugvallar í Hvassahrauni en félagið hefur undanfarið verið við prófanir í Hvassahrauni til að kanna möguleikann á að hafa flugvell í Hvassahrauni. Björgólfur segir að á endanum verði ákvörðunin um staðsetningu flugvallarins pólitísk.
Dagur segir að flugvöllurinn yrði á fjarsvæði vatnsverndar „og það kemur fram í gögnum Rögnunefndar að þar sé um saltvatn að ræða,“ segir Dagur í samtali við mbl.is. „Sem væri hugsanlega hægt að nýta í fiskeldi eða eitthvað slíkt. En það er ekki um það að ræða að saltvatn verði notað til neyslu, hvorki á Suðurnesjum né annars staðar.“
Spurður hvort hann telji ekki að umhverfisspjöll kunni að verða við uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni, m.t.t. nálægðar við vatnsverndarsvæðið segist Dagur ekki telja svo vera. „Ekki nema eitthvað nýtt komi fram og það var eitt af því sem athygli var vakin á að fara þyrfti yfir,“ segir Dagur. „Það er eðlilegt að það þurfi að gera eins og í tengslum við allar aðrar framkvæmdir. Við endurbætur á Reykjanesbrautinni þarf að passa frágang en það útilokar ekki að þar, eða á Grindarvíkurvegi, verði gerðar endurbætur,“ segir Dagur.