Katrín Lilja Kolbeinsdóttir
Guðrún Helga Árnadóttir, íbúi í Borgarnesi, segir að tveir franskir ferðamenn hafi bankað upp á hjá henni, að því er virðist fyrirvaralaust, og beðið um gistingu. Hún hafi hins vegar ekki orðið við því enda ekki þekkt mennina.
Í samtali við Morgunblaðið sagði Guðrún að sér hefði fundist þetta frekar óþægilegt. „Þeim fannst nákvæmlega ekkert að þessu, fannst þetta bara mjög eðlileg leið til þess að ferðast.“
Guðrún segir ferðamennina hafa barið að dyrum á allflestum íbúðum í blokkinni áður en þeir færðu sig yfir í annað hverfi. Þá hafi hún ákveðið að veita þeim tiltal. „Ég benti þeim bara á að þetta væri ekki boðlegt, þeir væru að fara inn á einkalóðir fólks.“ Mennirnir brugðust að sögn Guðrúnar frekar illa við þessu en héldu sína leið. Þeim tókst á endanum að verða sér úti um gistingu.
Guðrún segir að kjósi fólk að ferðast á þennan máta til að spara fé megi finna fullt af heimasíðum þar sem fólk býður upp á gistingu. Að hennar sögn er þetta ekki í fyrsta skipti sem svona gerist. Ferðamenn eigi það til að koma sér fyrir nánast hvar sem er.