„Skammist ykkar þið sem vinnið á Stígamótum og beitið svo sjálf ofbeldi og gerið lítið úr fólki fyrir að vera með afleiðingar kynferðisofbeldis.“ Þetta skrifar Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir, lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtakanna ’78 í pistli sem hún birti á Facebook-síðu sinni í nótt.
Í pistlinum fjallar hún um reynslu sína af því að starfa hjá Stígamótum, grasrótarsamtökum sem berjast gegn kynferðisofbeldi. Helga sagði lausu starfi sínu hjá Samtökunum ’78 á dögunum eftir aðeins sex mánuði í starfi, en rekur það til upplifunar sinnar á því að starfa hjá Stígamótum.
Í pistlinum, sem ber yfirskriftina „Að skila skömminni“ rekur Helga upplifanir sínar af starfinu, en hún segist hafa verið í ofbeldissambandi við fyrrum vinnustað sinn, Stígamót.
Lýsir hún því að starfsfólk hafi fengið skammir frá „þeirri sem ræður öllu“. Engar verklagsreglur séu á vinnustaðnum og hafi hún ítrekað upplifað að vera sett fyrir verkefni með engum fyrirmælum en uppskera skammir fyrir að hafa farið út fyrir ákveðið verklag, sem hafi annað hvort verið óljóst eða hún ekki látin vita af því fyrr en eftir á.
Þá segir hún að ekki sé unnið mikið faglegt starf á Stígamótum. „Á Stígamótum fara engar árangursmælingar fram á líðan þeirra skjólstæðinga sem þangað leita. Þær árangursmælingar sem gerðar fást úr einni Masters rannsókn um líðan fólks sem var að koma í fyrsta viðtal samanborið við líðan fólks sem hefur farið í fjögur viðtöl eða fleiri. Það hefur líka verið gerð Cand.psych rannsókn á áfallastreitu og sjálfsskaðahegðun þeirra sem leita og hafa lengi verið í viðtölum á Stígamótum. Tölfræðin þar er sem svimandi há, en við tölum ekki um það. Það eru óþægilegar staðreyndir, það selur ekki.“
Auk þess segir hún að sér hafi fundist ófaglegt að allur starfshópur Stígamóta hittist aðra hverja viku og ræði um mál skjólstæðinga sinna, oft með nafni. „En þeim finnst það nauðsynlegt því „við eigum að geta haldið á þessu öll saman.““
Jafnframt hafi henni þótt ófaglegt að sér hafi verið tjáð nöfn á fjölmörgum þjóðþekktum einstaklingum sem sakaðir hafa verið um að brjóta kynferðislega á þeim sem leitað hafa til Stígamóta. „Ísland er pínulítið land og ég sé ekki hvers ég er bættari að búa yfir þessum upplýsingum.“
Sérstaklega ófaglegt hafi henni fundist að stundum hafi verið að „re-trámatisera samstarfsfólk sitt með því að koma í hóphandleiðslu með erfiðustu og viðbjóðslegustu kynferðisofbeldismálin og lýsa því með grafískum lýsingum hvernig skjólstæðingur þeirra var beittur ofbeldi.“
Hún ítrekar þó að á Stígamótum sé unnið gríðarlega mikið og gott starf. „Stígamót hafa verið brautryðjandi í að taka umræðuna um kynferðisofbeldi úr skugganum og þögninni og yfir í að skapa samfélag þar sem brotaþolar skila skömminni. Ég ætla taka þessa flottu brotaþola mér til fyrirmyndar og skila skömminni, en fyrst og fremst til Stígamóta af því að fólkið sem vinnur þar, af öllu fólki, á að vita betur.“
Segir hún botninn hafa verið í hóphandleiðslu í október í fyrra þar sem hún hafi verið tekin fyrir og skömmuð fyrir framan allan starfshópinn. „Hæstráðandi tjáði pirring sinn út í mig, talaði um að ég væri ekki að skilja hvernig Stígamót virkuðu (ansans vesen fyrir mig að vera ekki skyggn þar sem ég fæ oft ekki upplýsingar fyrr en eftir á) og hellti úr skálum reiði sinnar.“
Helga segist hafa brotnað niður fyrir framan hópinn og í kjölfarið beðið hæstráðanda að ræða við sig. „Ég sagði að í mínum bókum héti það andlegt ofbeldi að taka fólk svona fyrir, sérstaklega fyrir framan alla. Mér var þá tjáð að það væri svo skrýtið með mig, ég væri svo klár en stundum hegðaði ég mér bara eins og ég væri fimm ára. Ég tók svo sannarlega undir að ég upplifði allavega að hæstráðandi skammaði mig eins og ég væri fimm ára. Við sammæltust um að reyna leysa málin.“
Í kjölfarið ræddi Helga uppákomuna við fjölskyldu og vini, eineltisfulltrúa Vinnumálastofnunar, og vinnusálfræðing frá stéttarfélaginu sínu, BHM. Þá sendi hún tölvupóst á allan starfshóp Stígamóta þar sem hún óskaði eftir aðkomu óháðra vinnusálfræðinga. Áður en póstinum var svarað hafi hins vegar verið búið að taka af henni ráðstefnuferð til Berlínar og afbóka öll viðtölin hennar.
„Þegar ég mætti til vinnu daginn mætti ég skelkuðum samstarfsmönnum og öskureiðum hæstráðanda og á endanum var ég send heim þar til afstaða yrði tekin til beiðni minnar. Á þeim tímapunkti var lokað fyrir tölvupóstinn minn og stofnaður nýr aðgangur að honum svo starfsfólk Stígamóta kæmist þar inn til að finna upplýsingar um fræðslu sem ég átti að vera með í FB daginn eftir.“
Helga segist ekki hafa fengið svar fyrr en vinnusálfræðingur BHM hringdi þangað til að athuga hvort búið væri að taka ákvörðun. „Honum var tjáð að Stígamót sæju enga ástæðu til að kalla til óháða vinnusálfræðinga og litið væri á bréfið mitt sem uppsögn.“
Lögfræðingur BHM hafi í kjölfarið boðist til að fara fyrir hennar hönd til að semja um starfslok. „Á þeim fundi héldu fulltrúar Stígamóta fast í þá útskýringu að í bréfinu mínu fælist uppsögn. Lögfræðingurinn mótmælti því og stakk upp á sex mánaða starfslokasamningi. Fundinum lauk með að fulltrúar Stígamóta sögðust ætla bera það undir stjórn. Rétt fyrir mánaðarmót var aftur lokað fyrirvaralaust á tölvupóstinn minn og ég fékk sent ábyrgðarbréf í pósti frá stjórn Stígamóta þar sem stjórnin taldi best að segja mér upp fyrst það væri á reiki hvort ég hefði sjálf sagt upp.“
Helga segir þessa framkomu hafa verið henni gríðarlegt áfall. Af öllu samstarfsfólkinu sem hún hafði unnið með í tvö og hálft ár hafi aðeins ein samstarfskona hennar haft samband við hana eftir þetta. „Mér leið eins og ég hefði labbað úr vottum Jehóva og verið útskúfað úr samfélaginu,“ skrifar hún og bætir við að hæstráðandi hafi hent sér af vinalistanum sínum á Facebook.
Eftir þessa reynslu hafi hún gert sitt besta til að bera höfuðið hátt. Hún hafi sótt um annað starf sem hún fékk og varð framkvæmdastjóri Samtakka ‘78. „Ég hellti mér út í nýja starfið af öllum lífs og sálarkröftum og brann svo út. Á hálfu ári. Ég er aftur komin með áfallastreitu og gamlar afleiðingar kynferðisofbeldisins hafa blossað upp með þeirri ömurlegu sjálfsmynd sem því fylgir. „Ég er ekki nóg.“ „Það er eitthvað að mér.“ „Ég á ekkert gott skilið.“ Þetta er það sem ofbeldi gerir. Það grefur undan tilverurétti þess sem fyrir því verður.“
Hún segist þó vera í góðum höndum enda sé hún í þeirri forréttindastöðu að geta borgað fyrir eigin áfallameðferð, aftur. „En ríkust er ég af fjölskyldu og vinum sem grípa mig þegar ég hrasa og styðja við bakið á mér eins lengi og ég þarf til að komast aftur á fætur. Handan við hornið eru nefnilega spennandi tækifæri, sem ég ætla stökkva á. En núna ætla ég bara að einbeita mér að því að láta mér batna og skila skömminni.“
Helga endar pistilinn á því að beina orðum sínum að starfsfólki Stígamóta. „Skammist ykkar þið sem vinnið á Stígamótum og beitið svo sjálf ofbeldi og gerið lítið úr fólki fyrir að vera með afleiðingar kynferðisofbeldis. Skammist ykkar fyrir að bregðast við ákalli um hjálp vegna eineltis á vinnustað með því að reka viðkomandi. Skömmin er alfarið ykkar!“
Ekki náðist í Guðrúnu Jónsdóttur, talskonu Stígamóta, við vinnslu fréttarinnar.