„Neyðarteppan“ að erlendri fyrirmynd

Andri Þór Sturluson, varaþingmaður Pírata.
Andri Þór Sturluson, varaþingmaður Pírata. Ljósmynd/Andri Þór Sturluson

„Neyðarteppa“, lík þeirri sem Andri Þór Sturluson, varaþingmaður Pírata, hvatti til í „Pírataspjallinu“, er þekkt fyrirbrigði og eru dæmi um að samtök hafi hvatt félagsmenn sína til að taka þátt í slíkum mótmælum. Andri Þór sagði í samtali við mbl.is í gær að um grín hafi verið að ræða og að hann tryði ekki að nokkur maður hefði tekið þátt í mótmælunum sem hann hvatti til.

Segja mætti að ábendingin um erlendu fyrirmyndina hafi komið úr óvæntustu átt, en það var forsetaframbjóðandinn fyrrverandi, Andri Snær Magnason, sem svaraði netverja sem gagnrýndi hugmynd Andra Þórs: „heilög vandlæting hf veldur því við getum aldrei rætt aðalatriði. Tillaga varaþingmanns var vísun í aktívisma í USA,“ skrifar Andri Snær og lætur fylgja slóð á frétt Outdoorlife frá árinu 2015.

Hringi í 911 og lögreglan mun þreytast á endanum

Í fréttinni er sagt frá herferð bandarísku regnhlífasamtakanna „Fylking gegn byssuofbeldi“ (CSGV) þar sem félagsmenn eru hvattir til að hringja inn í Neyðarlínuna, 911. Að vísu beinast mótmælin þar ekki að vopnaburði lögreglu heldur einstaklinga, en í flestum ríkja Bandaríkjanna er hann löglegur. 

Á Facebook-síðu samtakanna má lesa færslur frá aðildarfélögum sem taka þátt í þessari tegund mótmæla, sem á ensku kallast „SWATting“. 

„Í hvert skipti sem ég sé einhvern með byssu í búð hringi ég í 911,“ skrifar ein þeirra. „Þeir verða fljótlega þreyttir á því!!!“ og önnur skrifar: „Hringið bara í lögreglu í hvert skipti sem þið sjáið einhvern með byssu. Lögreglan þreytist fljótt á því eða lendir í átökum við einn þessara trúða og þá munu hlutirnir breytast.“

Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, sagði í samtali við mbl.is í gær að þessi tegund mótmæla geti haft mjög alvarlegar afleiðingar: „Ef þess­ar inn­hring­ing­ar sem verið er að gera til­lögu um bæt­ast við þegar það er mikið álag get­ur það valdið því að ein­hverj­ir nái ekki strax inn og valdið veru­leg­um skaða. Iðulega skipt­ir hver mín­úta máli í viðbragði þannig að aðgerð sem fel­ur í sér að teppa síma­lín­ur Neyðarlínu get­ur valdið al­var­legu heilsutjóni eða dauða.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert