Starfsleyfi sjókvíaeldis ógilt

Sjókvíaeldi á regnbogasilungi.
Sjókvíaeldi á regnbogasilungi. Umhverfisstofnun

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ógilti í gær starfsleyfi Umhverfisstofnunar varðandi 6.800 tonna sjókvíaeldi regnbogasilungs í Ísafjarðardjúpi sem gefið var út 25. október á síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu en það er fyrirtækið Háafell sem á og rekur sjókvíaeldið.

Það var Geiteyri ehf. og Akurholt ehf., sem eigendur Haffjarðarár í Hnappadal, Veiðifélag Laxár á Ásum, Atli Árdal Ólafsson, sem eigandi hluta veiðiréttar í Hvannadalsá, Langadalsá og Þverá í innanverðu Ísafjarðardjúpi, og Varpland ehf., eigandi hluta veiðiréttar í Langadalsá og Hvannadalsá í innanverðu Ísafjarðardjúpi, sem kærðu ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um útgáfu starfsleyfis til Háafells ehf. fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þetta kort frá Landssambandi veiðifélaga sýnir hvar regnbogasilungur hefur nú …
Þetta kort frá Landssambandi veiðifélaga sýnir hvar regnbogasilungur hefur nú veiðst í ám og fjörðum. Kort/Landssamband veiðifélaga

„Í úrskurðinum segir m.a. að yfir allan vafa sé hafin sú lagaskylda allra leyfisveitenda að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda sem til umfjöllunar eru og kynna sér matsskýrslu framkvæmdaaðila. Í rökstuddri afstöðu leyfisveitanda verði að felast efni rökstuðnings sem uppfyllir áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga þar um.

Þá segir að álit Skipulagsstofnunar hafi verið þess efnis, að helstu neikvæð áhrif fyrirhugaðs fiskeldis fælust í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús bærust í villta laxfiskastofna á svæðinu og að regnbogasilungur slyppi úr eldi í miklum mæli og kynni að hafa neikvæð áhrif á orðspor viðkomandi veiðiáa ef hann veiddist þar í umtalsverðu magni. 

Í starfsleyfinu hafi hvergi verið nefnt að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram og að álit Skipulagsstofnunar þar um liggi fyrir. Þá segir í úrskurðinum, að ekki verði fram hjá því litið að án tilvísunar til álits Skipulagsstofnunar og umfjöllunar um einstök efnisatriði þess, eftir því sem atvik gefa tilefni til, sé ekki við því að búast að aðili geti skilið hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á.

Loks væri ekki vikið að því í starfsleyfinu hvort mat á umhverfisáhrifum á mismunandi valkostum framkvæmdarinnar hafi farið fram,“ segir enn fremur í tilkynningu. 

Regnbogasilungur úr Varmá.
Regnbogasilungur úr Varmá. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Með hliðsjón af þessu væri ekki hægt að fallast á að Umhverfisstofnun hafi með ásættanlegum hætti tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. 

„Fleira er síðan sagt athugavert við undirbúning og meðferð hins kærða starfsleyfis, svo sem að ekki var getið um kæruheimild né kærufrest í hinu kærða starfsleyfi og auglýsing um starfsleyfið hafi ekki verið með fullnægjandi hætti. Tilgangur auglýsingar með lögákveðnum hætti væri einkum til að upplýsa almenning um að ákveðinni málsmeðferð hafi lokið með leyfisveitingu, gefa honum kost á að kynna sér forsendur þar að baki og taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til að kæra viðkomandi leyfi.

Loks er staðfest að tilgreind veiðitala veiddra fiska teljist sá fiskur sem veiddur er og hvort fiski sé sleppt hafi ekki áhrif á veiðitölur. Ekki verði séð að rökrétt sé sú staðhæfing að ekki skuli telja slepptan fisk með í veiðitölum viðkomandi veiðiár,“ segir í tilkynningu.

Hér er úrskurðurinn í heild

Hér er ákvörðun UST um að veita starfsleyfið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert