Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að Útgáfufélagið Stundin ehf. greiði Sögu Net-Útvarpi Sögu 200 þúsund krónur í bætur vegna birtingar fimmtán ljósmynda sem Útvarp Saga kvaðst eiga öll réttindin yfir. Ein myndanna var af Arnþrúði Karlsdóttur, útvarpsstjóra Útvarps Sögu, í búrku.
Saga Net-Útvarp Saga höfðaði málið í desember síðastliðnum og var málið dómtekið 19. maí. Í stefnunni kom fram að ljósmyndirnar hefðu verið á vefsíðu Stundarinnar frá 6. mars 2015 til 13. júlí 2016. Ekki hafi verið samið um heimild til birtingar eða þóknun fyrir.
Stefnandi krafðist þess að Stundin yrði dæmd til að greiða 7.500.000 krónur með dráttarvöxtum. Krafist var hæstu mögulegu þóknunar úr hendi stefnda, eða 500 þúsund króna fyrir hverja birtingu.
Í rökum Stundarinnar kom fram að myndirnar hafi birst á Facebook-síðu Útvarps Sögu. Þær hafi verið birtar með svokallaðri „public“-stillingu og því hafi allir aðgang að þeim. Með slíkri birtingu leyfi sá sem birtir öllum öðrum að nota efnið. Þá hafi myndunum verið dreift utan við Facebook án þess að stefnandi gerði athugasemd við það. Enn fremur beri myndirnar með sér að þær hafi verið birtar til að auglýsa efni útvarpsins. Þær hafi verið birtar til frekari dreifingar.
„Stefndi byggir á því að tilefni umfjöllunar sinnar hafi verið að upplýsa um málefni sem hafi átt erindi til almennings. Hann hafi viljað varpa ljósi á háttsemi þáttastjórnenda og fyrirsvarsmanna stefnanda sem hafi hæðst að minnihlutahópum, m.a. með því að klæðast í gervi þeirra og herma eftir framburði þeirra, saka fyrrum starfsmenn um kynferðisbrot í fjöldapóstum og taka á móti ýmsum gestum, m.a. fyrrverandi forsætisráðherra, sem hafi kosið stefnanda sem vettvang viðtala sinna umfram aðra fjölmiðla. Það sé fréttnæmt.“
Í rökum Stundarinnar segir einnig að umfjöllun á Útvarpi Sögu sé ámælisverð og smekklaus. Sum hver teljist hatursáróður. Myndbirtingin sé liður í gagnrýni á stefnanda.
Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að almennt eigi rétthafi kröfu til þóknunar sé ljósmynd birt án leyfis. Stefnandi hafi sýnt fram á að hann sé rétthafi að myndunum.
Þar segir að stefndi hafi ekki sannað að venja heimili endurgjaldslausa birtingu ljósmynda í fjölmiðlum. Birting ljósmynda ein og sér geti ekki talist næg sönnun fyrir slíkri venju. Ekki er heldur fallist á að birting ljósmyndanna sé honum heimil sem endursögn úr öðrum fjölmiðlum.
Fram kemur að Stundin hafi talið að í mynd af Arnþrúði Karlsdóttur í búrku felist hatursáróður en héraðsdómur fellst ekki á það. „Þessi mynd og grein sem hún fylgdi felur ekki í sér hatursáróður í skilningi áðurnefnds ákvæðis, hversu smekklega sem annars mætti telja þessa framsetningu.“
Þar segir einnig að öllum málsástæðum stefnda sé hafnað og að fallist sé á kröfu stefnanda um þóknun fyrir birtingu myndanna. Fjárhæð stefnukröfu sé aftur á móti fráleit.
„Við ákvörðun málskostnaðar í þessu máli er ekki unnt að fjalla um þær staðhæfingar stefnda að í útvarpi stefnanda hafi meiðyrði verið höfð í frammi um tiltekinn starfsmann stefnda. Þá verður ekki fallist á að rétt sé að kalla málshöfðanir fyrir almennum dómstólum þöggunartilburði. Að forminu til vinnur stefnandi málið en stefndi hefur ekki tapað því í öllu verulegu sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.“