Lítrinn á díselolíu hjá Costco hefur lækkað úr 158,9 krónum niður í 155,9 krónur. Er verðið töluvert lægra en hjá íslensku olíufélögunum. Við opnun verslunarinnar þann 23. maí sl. kostaði lítrinn 164,9 krónur.
Samkvæmt síðunni bensinverd.is er lítrinn hjá íslensku olíufélögunum af díselolíu ódýrastur hjá sérstökum X-stöðvum Orkunnar eða í 162,7 krónum, það er 6,8 krónum dýrari en hjá Costco.
Verðið á díselolíu hefur lækkað töluvert frá því í lok síðasta mánaðar þegar mbl.is gerði úttekt á verðinu, en þá var verðið hjá Costco í 161,9 krónum, en verðið hjá X-stöðvum Orkunnar í 170,6 krónum.
Lítrinn af bensíni hjá Costco hefur einnig lækkað aðeins eða niður í 164,9 krónur, sem er einnig töluvert lægra verð en hjá íslensku olíufélögunum. Lítrinn hjá íslensku olíufélögunum af bensíni er ódýrastur hjá X-stöðvum Orkunnar eða í 175,2 krónum eða 10,3 krónum dýrari en hjá Costco.
Hjá stöðvum Dælunnar kostar lítrinn 175,2 krónur, 183,2 krónur hjá Atlantsolíu á Skemmuvegi, 190,3 krónur hjá öðrum stöðvum Orkunnar, 190,4 krónur hjá ÓB, 190,4 krónur hjá öðrum stöðvum Atlantsolíu, 190,7 krónur hjá N1, 192,4 krónur hjá Skeljungi og 192,4 krónur hjá Olís.