Flóttabörn fá ekki viðeigandi menntun

Börn á flótta eiga rétt á viðeigandi menntun í dvalarlandinu.
Börn á flótta eiga rétt á viðeigandi menntun í dvalarlandinu. Eggert Jóhannesson

Ekki hafa öll flóttabörn hér á landi, eða börn hælisleitenda, fengið viðeigandi menntunarúrræði og fyrirséð er að sama staða verið viðvarandi haust þegar skólarnir fara aftur af stað. Þetta segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„Við vitum af því að eftir að það varð sprenging í fjölda hælisleitenda hér á landi þá hafi Útlendingastofnun ekki náð að sinna því lögbundna hlutverki að koma börnum hælisleitenda í menntunarúrræði. Það er mjög alvarlegt og það þarf að gera betur í þeim málum. Sú stofnun þarf að fá frekari fjárveitingar eða meiri aðstoð til að bæta úr því. Það er fyrirséð með haustinu að það komi önnur bylgja.“

Bergsteinn segir alvarlegt mál að Útlendingastofnun nái ekki að sinna …
Bergsteinn segir alvarlegt mál að Útlendingastofnun nái ekki að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Aðsend mynd

Í nýrri skýrslu UNICEF um stöðu barna í efnameiri ríkjum er lögð áhersla á þau tíu heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem talin eru mikilvægust fyrir velferð barna. Jöfn tækifæri til menntunnar falla undir þau markmið. Í skýrslunni er komið inn á stöðu flóttabarna og aðgengi þeirra að viðeigandi menntunarúrræðum, en aðgengi að menntun er hluti af grundvallar mannréttindum barna á flótta, án tillits til lagalegrar stöðu þeirra í landinu sem þau dvelja. Heilbrigðis- og félagsþjónusta falla einnig undir grundvallarmannréttindi.

Í langflestum Evrópuríkjum þarf viðkomandi barn þó að hafa löggilt dvalarleyfi til að fá áðurnefnda þjónustu og hefur það orðið til þess að flóttabörn fá ekki þá þjónustu sem þau eiga rétt á. Í Búlgaríu, Finnlandi, Ungverjalandi og Litháen hefur óskráðum flóttabörnum til að mynda verið meinað aðgengi að menntun, að fram kemur í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert