Réttindalaus með bilaða bakkmyndavél

Jökulsárlón.
Jökulsárlón. mbl.is/Ómar Óskarsson

Skipstjóri hjólabáts, sem bakkað var á kanadíska fjölskyldu við Jökulsárlón í ágúst 2015 með þeim afleiðingum að kona lést, hafði ekki réttindi til stýra bátnum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa sem birt var í dag. Þar segir að bakkmyndavél, sem er í öllum slíkum bátum sem sigla á Jökulsárlóni, hafi verið biluð í bátnum og svo hafi verið um nokkurt skeið. Þá hafi hvorki skipstjórinn né annar starfsmaður gengið úr skugga um að hættulaust væri að aka aftur á bak. Fréttavefur Ríkisútvarpsins greindi fyrst frá.

Fólkið sneri baki í hjólabátinn þegar slysið varð og var að fylgjast með þyrlu lenda sem það hafði ferðast með. Fyrir vikið heyrði það ekki í hjólabátnum vegna hávaða frá þyrlunni auk þess sem báturinn gaf ekki frá sér viðvörunarhljóð þegar bakkað var. Fjölskyldan féll öll við þegar bátnum var ekið á hana og varð konan undir afturhjóli hans og lést samstundis. Fleiri atriði eru nefnd sem hafi átt þátt í slysinu eins og að umferð gangandi vegfarenda, hjólabáta og annarra ökutækja á malarplaninu sé ekki aðgreind og að útsýni úr hjólabátnum sé ekki gott.

Frétt mbl.is: Nýjar merkingar eftir banaslysið

Því er beint til landeiganda og rekstraraðila við Jökulsárlón að hefja uppbyggingu mannvirkja í samræmi við gildandi deiliskipulag með það fyrir augum að bæta umferðaröryggi og draga þannig úr slysahættu. Þá þurfi að uppfæra öryggisáætlun hjólabátanna með tilliti til öryggis við akstur þeirra á landi og bæta reglur sem gildi um notkun þeirra.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert