Tíu þúsund kallinn ekki á förum

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Tíu þúsund kall­inn“ er ekki að fara neitt. Þetta seg­ir Bene­dikt Jó­hann­es­son fjár­málaráðherra en í til­lög­um starfs­hóps um skattaund­an­skot sem kynnt­ar voru í gær var boðað átak gegn reiðufé, meðal ann­ars með því að taka stóru seðlana úr um­ferð, fyrst „tíu þúsund kall­inn“ og síðar fimm þúsund króna seðil­inn.

Í sam­tali við mbl.is seg­ir Bene­dikt það mik­il­vægt að ræða hug­mynd­irn­ar, en einnig að vinna úr þeim þannig að víðtæk sátt sé um þær. Seg­ir hann mestu máli skipta í til­lög­un­um sem starfs­hóp­ur­inn kynnti í gær að víðtæk sátt sé um átak gegn skattaund­an­skot­um. 

Seg­ir hann eitt mik­il­væg­asta atriðið þar um vera að greiða út laun með rekj­an­leg­um hætti. Það sé ekki ein­göngu skatta­mál held­ur jafn­framt rétt­inda­mál fyr­ir launa­fólk. „Eitt­hvað sem við sem vinn­um venju­lega vinnu venj­umst og lít­um á sem eðli­leg­an viðskipta­máta,“ seg­ir Bene­dikt.

Ekki mark­miðið að ganga nærri per­sónu­frelsi nokk­urs manns

Bene­dikt ger­ir einnig minna úr þaki á reiðufé og seg­ir að í stað þess að leggja blátt bann við greiðslum yfir ákveðinni fjár­hæð verði hert á þeirri til­kynn­ing­ar­skyldu sem þegar er til staðar þegar greiðslur í formi reiðufjár fara yfir ákveðin mörk.

„Ég skil vel þess­ar hug­mynd­ir og veit í hvaða skyni þær eru sett­ar fram,“ seg­ir Bene­dikt um til­lög­ur hóps­ins. „Það er verið að reyna að deyfa svarta hag­kerfið, en það eru auðvitað til fleiri aðgerðir þar.“ 

Spurður út í frels­is­sjón­ar­miðin sem felst í rétti fólks til að ráða því sjálft hvort það eigi eða noti reiðufé seg­ist Bene­dikt meðvitaður um þau sjón­ar­mið og nefnd­in líka. „Menn átta sig á því að þegar þeir setja fram hug­mynd­ina að hún sé um­deil­an­leg, og hún reynd­ist vera um­deild. Það er auðvitað ekki mark­miðið með þessu að ganga nærri per­sónu­frelsi nokk­urs manns,“ seg­ir Bene­dikt.

„Samstaða er meðal þjóðar­inn­ar um að berj­ast gegn skattsvik­um. Það var mark­miðið með skýrsl­un­um og við veruðm að halda áfram í sam­vinnu við sem allra flesta og koma með til­lögu sem verður víðtæk samstaða um og leiðir til ár­ang­urs,“ seg­ir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert