Tíu þúsund kallinn ekki á förum

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Tíu þúsund kallinn“ er ekki að fara neitt. Þetta segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra en í tillögum starfshóps um skattaundanskot sem kynntar voru í gær var boðað átak gegn reiðufé, meðal annars með því að taka stóru seðlana úr umferð, fyrst „tíu þúsund kallinn“ og síðar fimm þúsund króna seðilinn.

Í samtali við mbl.is segir Benedikt það mikilvægt að ræða hugmyndirnar, en einnig að vinna úr þeim þannig að víðtæk sátt sé um þær. Segir hann mestu máli skipta í tillögunum sem starfshópurinn kynnti í gær að víðtæk sátt sé um átak gegn skattaundanskotum. 

Segir hann eitt mikilvægasta atriðið þar um vera að greiða út laun með rekjanlegum hætti. Það sé ekki eingöngu skattamál heldur jafnframt réttindamál fyrir launafólk. „Eitthvað sem við sem vinnum venjulega vinnu venjumst og lítum á sem eðlilegan viðskiptamáta,“ segir Benedikt.

Ekki markmiðið að ganga nærri persónufrelsi nokkurs manns

Benedikt gerir einnig minna úr þaki á reiðufé og segir að í stað þess að leggja blátt bann við greiðslum yfir ákveðinni fjárhæð verði hert á þeirri tilkynningarskyldu sem þegar er til staðar þegar greiðslur í formi reiðufjár fara yfir ákveðin mörk.

„Ég skil vel þessar hugmyndir og veit í hvaða skyni þær eru settar fram,“ segir Benedikt um tillögur hópsins. „Það er verið að reyna að deyfa svarta hagkerfið, en það eru auðvitað til fleiri aðgerðir þar.“ 

Spurður út í frelsissjónarmiðin sem felst í rétti fólks til að ráða því sjálft hvort það eigi eða noti reiðufé segist Benedikt meðvitaður um þau sjónarmið og nefndin líka. „Menn átta sig á því að þegar þeir setja fram hugmyndina að hún sé umdeilanleg, og hún reyndist vera umdeild. Það er auðvitað ekki markmiðið með þessu að ganga nærri persónufrelsi nokkurs manns,“ segir Benedikt.

„Samstaða er meðal þjóðarinnar um að berjast gegn skattsvikum. Það var markmiðið með skýrslunum og við veruðm að halda áfram í samvinnu við sem allra flesta og koma með tillögu sem verður víðtæk samstaða um og leiðir til árangurs,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert