Féll í Fossá við veiðar

Fossá við Hjálparfoss í Þjórsárdal.
Fossá við Hjálparfoss í Þjórsárdal. fishinginiceland.com

Karlmaður var í dag fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á slysadeild Landspítalans eftir að hann féll í Fossá við Hjálparfoss í Þjórsárdal. Maðurinn var við veiðar með bróður sínum þegar atvikið átti sér stað. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er hann ekki alvarlega slasaður.

Þegar maðurinn féll í ána fylltust vöðlur hans af vatni sem gerði það að verkum að hann sökk í ána. Bróðir hans stökk út í á eftir honum og náði að koma honum upp á bakkann hinum megin.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu missti maðurinn meðvitund um stund en rankaði fljótlega við sér. Þyrla Landhelgisgæslunnar mætti á staðinn klukkan 13:40 og fékk hann aðhlynningu hjá sjúkraflutningamönnum á staðnum áður en hann var fluttur á slysadeild Landspítalans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka