Sex herskip og einn kafbátur sigldu saman úr Faxaflóa í gær og þaðan í fylkingu inn Hvalfjörðinn. Tilefnið var að minnast þeirra sem létust í árásum kafbáta og herskipa nasista á skipalest bandamanna Sovétríkjanna, sem nefndist PQ17. 75 ár eru nú liðin frá atburðinum. Alls lögðu 35 skip af stað úr Hvalfirði áleiðis til Kólaskaga í Rússlandi árið 1942. Um var að ræða flutningaskip sem höfðu meðferðis hergögn handa Sovétríkjunum. Þótti Hvalfjörður hentug staðsetning, meðal annars vegna stærðar sinnar.
Til þess að komast á áfangastað urðu skipin að sigla hættulega nálægt ströndum Noregs, þar sem Þjóðverjar héldu til. Afleiðingin varð sú að aðeins ellefu af þeim 35 skipum sem lögðu af stað komust heil til hafnar. Alls var 24 skipum grandað undan ströndum Noregs, og með þeim fórust 153 menn.Varðskipið Týr fór fyrir lestinni í gær. Herskipin sem tóku þátt voru frá Noregi, Danmörku, Bretlandi, Hollandi og Frakklandi, en þau eru öll við strendur Íslands um þessar mundir vegna kafbátaeftirlitsæfingar Atlantshafsbandalagsins. Þá tók einnig kafbátur frá Noregi þátt í siglingunni.
Lagt var af stað klukkan hálf átta í gærmorgun frá Reykjavíkurhöfn. Um borð voru meðal annars Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Magnús Þór Hafsteinsson, fyrrverandi alþingismaður. Magnús ritaði meðal annars bókina Dauðinn í Dumbshafi – Íshafsskipalestirnar frá Hvalfirði og sjóhernaður í Norður-Íshafi 1940-1945. Þá voru að auki um borð fulltrúar frá níu ríkjum Atlantshafsbandalagsins, ásamt fjölda blaða- og fréttamanna sem sáu um að skrásetja siglinguna í þaula.
Að sögn Magnúsar var um sögulegan atburð að ræða. „Að hér séu samankomnir fulltrúar stríðandi fylkinga til þess að minnast saman þessa atburðar er einstakt.“ Guðlaugur Þór tók í sama streng. Sagði hann siglinguna til marks um hversu langt þessar þjóðir væru komnar og vonaði að þetta myndi efla enn frekar samskipti og tengsl þessara þjóða, á grundvelli sameiginlegrar sögu.
Í Hvalfirði var tekið stutt stopp þar sem Guðlaugur Þór hélt ávarp. Talaði hann um mikla hetjudáð þeirra sem fórust og að afrek þeirra mættu ekki gleymast. Að loknu ávarpi var blómsveig varpað í hafið til minningar um hina látnu. Í kjölfarið var mínútuþögn í virðingarskyni og að lokum siglt aftur til hafnar í Reykjavík. Skipin sex, ásamt norska kafbátnum, héldu æfingum sínum áfram á meðan Týr lagði að bryggju. Raunir skipalestarinnar PQ17 eru skrifaðar í sögubækurnar. Landfræðileg staðsetning Íslands skipti miklu máli þegar bandamenn Sovétríkjanna þurftu að ferja hergögn og aðrar vörur sín á milli. Ekki var það alltaf hættulaust eins og sannaðist í tilfelli PQ17. Voru allir um borð í Tý í gær sammála um að minningarathöfnin hefði tekist einkar vel.