Sárin í mosanum grædd

Fyrir stuttu voru unnin skemmdarverk í mosanum í Litlu Svínahlíð við Nesjavelli. Í dag var vinnuhópur á vegum Orku Náttúrunnar að græða sárin með því að planta mosa í þau. Aðferðin er einföld og segir Magnea Magnúsdóttir landgræðslustjóri ON að allir geti grætt sár í mosa í sínu nærumhverfi.

Með því að taka upp litlar þúfur af mosa og raða þeim í sárin sem fólk hefur skilið eftir sig er hægt að græða skemmdirnar sem Magnea kallar mosakrot. „Þetta tekur nokkur ár að jafna sig og gróa alveg saman. Kannski svona fimm ár en þessi aðferð virkar nokkuð vel sýnist okkur.“

Hún áætlar að það sé eins til tveggja daga vinna að græða sárin í Litlu Svínahlíð og segir að með svipuðum aðgerðum sé hægt að laga sárin sem hafa um margra ára skeið verið sýnileg í Vífilfelli. Með þessu sé líka mögulega komið í veg fyrir frekari skemmdir. „Þegar fólk sér svona [mosakrot] þá kannski fær það hugmyndir. Þannig að það er mjög mikilvægt að við lögum þetta sem fyrst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert