Fjölskylda hinnar kanadísku Shelagh D. Donovan sem lést þegar hún varð fyrir hjólabát við Jökulsárlón árið 2015 hefur fallið frá einkaréttarkröfu í máli gegn skipstjóranum sem stýrði bátnum.
Málið var þingfest í morgun og fram kemur á fréttavef RÚV að maðurinn hafi neitað sök í málinu. Þá fékk verjandi hans frest fram á haust til að leggja fram greinargerð í málinu. Samkvæmt frétt RÚV kom fram við þingfestinguna í morgun að tryggingafélag Jökulsárslóns ehf. hefði gert upp við ekkil konunnar.
Í ákæru kom fram að fjölskyldan krefðist þess að maðurinn greiddi samtals um 44 milljónir króna í skaðabætur og allan málskostnað. mbl.is hefur fengið það staðfest að Héraðsdómi Austurlands barst bréf þess efnis í morgun.
Frétt mbl.is: Krefjast 44 milljóna í skaðabætur
Lögreglustjórinn á Suðurlandi gaf út ákæru á hendur manninum, en hann er ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Er þess krafist að hann verði dæmdur til refsingar, sviptingu ökuréttar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Verði maðurinn fundir sekur um manndráp af gáleysi gæti hann átt yfir höfði sér sex ára fangelsi.
Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa, sem kom út á föstudag, kom fram að maðurinn hafði ekki réttindi til stýra bátnum. Þar segir að bakkmyndavél, sem er í öllum slíkum bátum sem sigla á Jökulsárlóni, hafi verið biluð í bátnum og svo hafi verið um nokkurt skeið. Þá hafi hvorki skipstjórinn né annar starfsmaður gengið úr skugga um að hættulaust væri að aka aftur á bak.