Ljóst er að auka þarf útgjöld ríkisins til sjúkraflutninga ef bæta á við einni til tveimur sjúkraþyrlum og flytja fleiri sjúklinga með slíkum fararskjóta á sjúkrahús til Reykjavíkur. Landhelgisgæslan er í dag kölluð 130 sinnum út á ári í sjúkraflug en áætlanir fagráðs sjúkraflutninga ganga út frá því að bara á Suðurlandi og Vesturlandi verði útköll einnar sjúkraþyrlu um 300 til 600 á hverju ári.
Viðar Magnússon, yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa og formaður fagráðs sjúkraflutninga, hefur mikla reynslu af sjúkraflugi, bæði með björgunarþyrlum Landhelgisgæslunnar hér á landi en einnig á sjúkraþyrlum í Noregi og Bretlandi.
Hann segir að eins og staðan sé í dag takist ekki að sinna útköllum vegna sjúkraflutninga í dreifðari byggðum innan þess tíma sem þarf. Tími að fyrstu meðferð og tími að sérhæfðri meðferð getur hins vegar skipt sköpum um árangur meðferðar, s.s. við heilablæðingu, kransæðastíflu eða slag. Því beri að líta til ýmissa heilsuhagfræðilegra þátta við mat á heildarkostnaði, s.s. minni örorku landsmanna við bætta heilbrigðisþjónustu.
Með sjúkraþyrlu með áhöfn á bundinni vakt færi viðbragðstími úr tæpum hálftíma niður í nokkrar mínútur og með vel þjálfaðri áhöfn og vel útbúinni þyrlu sé hægt að veita sérhæfða meðferð miklu fyrr en verið hefur.
„Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að byrja næsta sumar,“ segir Viðar um að taka á leigu sjúkraþyrlu til reynslu, í eitt, tvö ár. „Sjúkraflutningar með bílunum verða styttri, sjúkraflugi með flugvélum fækkar eitthvað auk þess sem vaxandi hluti þeirra sem við flytjum með sjúkraflugi og þyrlum eru erlendir ferðamenn. Eitthvað kæmi til baka þar í gegnum tryggingarnar þeirra,“ segir Viðar en áætlað er að rekstrarkostnaður við eina sjúkraþyrlu sé um 650 milljónir króna. Það er kostnaðurinn á hinum Norðurlöndunum og gengið út frá því að hann verði svipaður hér á landi.
Hugmyndir fagráðsins ganga ekki út á að fækka björgunarþyrlum eða skipta þeim út fyrir sjúkraþyrlur heldur að bæta við einni sjúkraþyrlu til að byrja með og hugsanlega annarri í kjölfarið, en ekki síst að hugsa sjúkra- og þyrluflug frá grunni.
„Ég myndi vilja sjá áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar á staðvakt strax,“ segir Viðar en núna er áhöfnin á bakvakt og viðbragðastími þyrlunnar því u.þ.b. hálftími í stað nokkurra mínútna hjá sjúkraþyrlum nágrannaríkjanna.
Sjúkraþyrlurnar eru bæði útsettari fyrir ísingu og henta ekki eins vel og björgunarþyrlunar við erfið veðurskilyrði. Þá eru björgunarþyrlurnar langdrægari en sjúkraþyrlur.
Óttari Proppé heilbrigðisráðherra voru kynntar hugmyndirnar í síðustu viku. Óttarr var á fundi þegar mbl.is reyndi að ná af honum tali en Unnsteinn Jóhannsson aðstoðarmaður hans sagði skýrsluna vera í skoðun hjá ráðherra, og hann væri bara rétt búinn að fá hana í hendurnar.
Líkt og fram kemur í skýrslu fagráðs um þetta efni eru sjúkraþyrlurnar nettari en björgunarþyrlurnar og umtalsvert ódýrari í rekstri en talið er að rekstrarkostnaður björgunarþyrla sé tvisvar til þrisvar sinnum meiri en sjúkraþyrla. Auk þess eru margar sjúkraþyrlur aðeins með þrjá í áhöfn, þ.e. flugstjóra, lækni og annaðhvort bráðaliða eða hjúkrunarfræðing. Í björgunarþyrlunum íslensku eru yfirleitt fimm í áhöfn, einn auka flugstjóri og stýrimaður eða sigmaður.