Hafnað vegna hraðasektar eftir 11 ára dvöl

Bala Kamallakharan, stofnandi Startup Iceland og fjárfestir í nýsköpun.
Bala Kamallakharan, stofnandi Startup Iceland og fjárfestir í nýsköpun. mbl.is/Styrmir Kári

Fjárfestinum Bala Kamallakharan var neitað um íslenskan ríkisborgararétt í dag vegna hraðasektar sem hann fékk eftir að hafa sent inn umsóknina. Upphæð sektarinnar var lægri en það sem stofnunin segir að lengi biðtímann. 

„Þetta er furðulegt því ég sendi umsóknina í desember og fékk hraðasekt í febrúar. Þetta tók 6 mánuði og þá spyr maður sig hvað hefði gerst ef ég hefði fengið hraðasekt eftir að hafa fengið ríkisborgararétt,“ segir Bala í samtali við mbl.is

Bala hefur verið búsettur á Íslandi í 11 ár. Hann er kvæntur íslenskri konu og á tvö börn. Hann er stofnandi Startup Iceland-ráðstefnunnar sem hefur verið haldin árlega undanfarin 6 ár og hefur fengið fjölmarga erlenda fjárfesta í nýsköpun til landsins auk þess að fjárfesta sjálfur í nýsköpun.

„Þetta er áminning um stöðu fólksflutninga í heiminum í dag. Ég hef búið hér í ellefu ár, er virkur hluti af frumkvöðlasamfélaginu og stofnaði Startup Iceland. En ástæðan fyrir því að ég vakti athygli á þessu er ekki hver ég er heldur sú að reglurnar ættu að vera sanngjarnar.“ 

Á vef Útlendingastofnunar segir að biðtími lengist ekki ef umsækjandi hefur aðeins hlotið eina sekt lægri en 50.000 krónur. Sektin sem Bala fékk var lægri en sú upphæð en hann telur að mistök hafi verið gerð. 

„Ég fékk hraðasekt á bíl sem er skráður á mig og líka konan mín. Þeir hafa líklega stílað allt á mig. Nú er ég er búinn að tala við lögregluna sem hefur staðfest að ég hafi bara eina hraðasekt þannig að þetta virðast vera mistök.“

Bala ætlar að áfrýja ákvörðun Útlendingastofnunar og hefur þrjá mánuði til þess. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert