Harpa ekki lengur miðpunktur

Iceland Airwaves 2016, Mammút á sviðinu.
Iceland Airwaves 2016, Mammút á sviðinu. mbl.is/Freyja Gylfa

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves verður með breyttu sniði í ár þar sem Harpa verður ekki lengur miðpunktur hennar og aðaltónleikastaður, þó að tvennir stórir tónleikar verði haldnir í Eldborg.

Í stað sala Hörpu koma nýir og minni tónleikastaðir og hefur breytingin í för með sér fækkun aðgöngumiða, en þeir verða 7.500 í stað 9.000. Þá hefur einnig verið ákveðið að fækka frítónleikum utan dagskrár, sk. „off-venue“-tónleikum.

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, segir breytingarnar m.a. gerðar vegna aðstæðna á markaði, mjög mikils framboðs á tónleikum hér á landi. 

Grímur er í framhaldi af þessum ummælum spurður að því hvort miðasalan á Iceland Airwaves gangi ekki nógu vel, að hans mati. „Jú, við höfum selt alveg nóg en ég er hins vegar ekki viss um að það verði áfram pláss fyrir okkur jafnstór og við erum. Það er auðvitað ekki komin reynsla á það en hins vegar er betra, að mínu mati, að stækka eðlilega,“ svarar Grímur og lítur til næsta árs.

„Hvað mun gerast 2018? Eigum við ekki frekar að gera þetta, koma með þessar áherslur og bæta við Akureyri, taka hátíðina út úr Hörpu og búa til þessa gömlu stemningu aftur? Er það ekki besta leiðin núna þegar 100.000 aðrir miðar eru í boði?“ bætir hann við.

Spurður um hvort Harpa hafi  verið of dýr segir Grímur að Harpa sé auðvitað frekar dýr tónleikastaður en það er ekki aðalatriðið.

„Kostur Hörpu og um leið galli er að hún er svampur, tekur við svo miklum mannfjölda. Í þriðja lagi – og það tengist ekki Hörpu beint – er að sviðin í henni eru mörg mjög stór. Við erum að tala um að á Iceland Airwaves eru fimm svið sem ná yfir þúsund gestum, jafnvel nær 2.000 og þegar það er í gangi þarftu að vera með svo stóra listamenn á hverju sviði til að fólk hafi áhuga á því að hlaupa á milli tónleika.

Airwaves er að reyna að kynna nýja tónlist, það sem er spennandi og það hafa ekki endilega 1.500 manns áhuga á að sjá hverja tónleika. Þegar stelpurnar í Haim komu, sem eru orðnar mjög stórar núna, eða Hozier, var það ekki þannig að fólk biði í röðum eftir að komast á þá tónleika þó það geri það kannski í dag. En það er svo erfitt að vera með marga stóra listamenn og dagskráin verður líka svo dýr að það er ekkert vit í því,“ segir Grímur.

Að þessu leyti henti Harpa því hátíðinni ekki alltaf vel og betra að vera með fleiri og minni tónleikastaði. „Fólk á það til að festast í Hörpu sem getur hindrað flæði,“ útskýrir Grímur. Hann segir hið breytta fyrirkomulag gefa skipuleggjendum hátíðarinnar meira frelsi og sveigjanleika og auk þess verði það vítamínsprauta fyrir hátíðina.

Hægt er að lesa ítarlegt viðtal við Grím í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert