Hrundið af stað nýju „höfrungahlaupi“

Kristján Þórður Snæbjarnarson.
Kristján Þórður Snæbjarnarson. mbl.is/Styrmir Kári

Kjararáð, í umboði Alþingis, hefur „hvellsprengt“ launarammann, að sögn formanns Rafiðnaðarsambands Íslands. Hann segir æðstu stofnun landsins hafa hleypt af stað „nýjasta höfrungahlaupinu“ sem aðilar vinnumarkaðarins hafi reynt að halda aftur af á síðustu árum.

Kristján Þórður Snæbjarnarson segir ekki nóg með að Kjararáð hafi ákveðið að hækka verulega laun æðstu fulltrúa ríkisins heldur eigi launahækkanirnar að gilda langt aftur í tímann. Það sé eitthvað sem almenningi standi nánast aldrei til boða og þá sé stærðargráðan fordæmalaus.

Með gríðarlegum launahækkunum sem skila sér í vasa þeirra sjálfra þá gat Alþingi ekki tekið á þessum málum, ekki vildu þeir skerða sinn hlut og báru við að Alþingi gæti ekki hlutast til um þessi mál. Það er rétt að Alþingi á ekki að hlutast til um að hækka laun alþingismanna eitt og sér en Alþingi getur ætíð stigið fram og stöðvað vitleysu sem þessa og hefði betur gert það,“ segir Kristján í pistli á vef Rafiðnaðarsambandsins.

Hann segir að opinberir starfsmenn muni eðlilega sækja skýr viðmið í umræddar launahækkanir og eingreiðslur.

Hættumerki eru þegar farin að sjást í efnahagskerfinu þó svo þau séu ekki eins alvarleg og fyrir Hrunið en nauðsynlegt er að halda rétt á spöðunum. Ljóst er að stjórnvöld í landinu ætla ekki að gera það og því spyr maður eins og börnin gera, af hverju eigum við að halda aftur af okkur og sitja ein eftir? Kjarasamningar munu losna í upphafi næsta árs að öllum líkindum sökum síendurtekinna úrskurða Kjararáðs. En ekki nóg með það að samningar losni því ljóst er að hópar munu eðlilega sækja sér viðmið í þessa úrskurði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert