„Þetta er alveg feykilega mikilvægt skref. Þetta er fyrsta skipti sem safnið fær eigið rými til sýninga í þau tíu ár sem það hefur verið starfrækt. Það er býsna mikilvægur áfangi fyrir höfuðsafn,“ segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, sem í dag skrifaði undir samning við Perlu norðursins um að safnið fái aðstöðu til sýningarhalds í Perlunni. Um er að ræða 350 til 380 fermetra rými til að byrja með.
„Aðstaðan er alveg hreint frábær og húsnæðið glæsilegt. Það verður gaman að setja upp hérna í húsinu. Það er líka hægt að vinna með alla umgjörðina hérna í Öskjuhlíðinni,“ bætir hann við, en fyrirhugað er að sýning Náttúruminjasafns Íslands opni á nýrri annarri hæð Perlunnar í tengslum við 100 ára afmæli fullveldis Íslands árið 2018.
„Það eru þó mörg ljón eftir á veginum. Það á til að mynda eftir að tryggja fjármögnun. Fyrsta verkið okkar núna, sem er í raun farið af stað, er að mynda hönnunarteymi. Við ætlum að máta nokkrar innsetningar inn í rýmið okkar og kostnaðarmeta verkefnið. Þetta á að liggja fyrir í haust og þá kemur til kasta Alþingis sem tekur ákvörðun um hvort verði af fjármögnuninni,“ útskýrir Hilmar.
Hann segir það mun hagkvæmara fyrir ríkið að vinna með einkaaðila líkt og Perlu norðursins, heldur en að koma upp nýju húsnæði. „Það er auðvitað framtíðardraumurinn, en hann rætist ekki alveg í bráð. Það er langtímamarkmiðið engu að síður. Það er gott fyrir safnið að byrja í áföngum. Á næsta ári stendur safninu jafnvel til boða um 400 fermetra flötur til viðbótar í nýjum tanki Perlunnar.“
Safnið á ýmsa muni sem verður komið fyrir í rýminu, en fleiri stofnanir og einstaklingar eiga líka muni sem verða nýttir. „Þetta snýst mikið um að setja hlutina saman á réttan hátt og setja þá þannig fram að þeir kveiki áhuga og ánægju. Við skulum heldur ekki gleyma að þetta er fræðslu- og menntastofnun og við munum leggja ríka áherslu á yngsta skólastigið, þar með talið leikskólana. Þetta á að vera lifandi vettvangur, hér verða lifandi lífverur og krökkunum á að þykja það virkilega spennandi að koma hér, og jafnframt fræðandi.“
Náttúruminjasafn Íslands var stofnsett með lögum vorið 2007, en rætur þess liggja þó aftur til ársins 1889 þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað, með það meginmarkmið að koma upp sem fullkomnustu náttúrugripasafni á Íslandi. Náttúruminjasafn Íslands er eitt þriggja höfuðsafna landsins auk Listasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands og heyrir það undir mennta- og menningarmálaráðuneyti.