Minni þyrlur koma ekki í stað stærri

Landhelgisglæslan hefur á leigu björgunarþyrluna TF-GNÁ. Björgunarþyrlur eru stærri og …
Landhelgisglæslan hefur á leigu björgunarþyrluna TF-GNÁ. Björgunarþyrlur eru stærri og öflugri, en einnig dýrari í rekstri, en sjúkraþyrlur. Keyptar verða þrjár björgunarþyrlur fyrir Landhelgisgæsluna á næstu árum. mbl.is/Sigurður Bogi

Ekki ert gert ráð fyrir sjúkraþyrlu í kaupum Landhelgisgæslunnar á þremur nýjum þyrlum á árunum 2019 til 2021 en þyrlurnar þrjár koma í stað núverandi vélakosts Landhelgisgæslunnar sem á eina af þremur þyrlunum sem stofnunin hefur til umráða. Sú sem er í eigu Gæslunnar er yfir 30 ára en hinar tvær eru leigðar. 

Vinna við frum- og þarfagreiningu fyrir fyrirhuguð þyrlukaup fer fram hjá Landhelgisgæslunni að sögn Péturs U. Fenger, skrifstofustjóra dómsmálaráðuneytisins. Hann segir að þær þyrlur sem þar séu til umræðu séu allt öðru vísi en dæmigerð sjúkraþyrla, en fagráð um sjúkraflutninga lagði í gær til að fengin yrði sjúkraþyrla til að annast sjúkraflutninga hjá alvarlega veikum og slösuðum á Suðurlandi og Vesturlandi. Áætlar fagráðið að útköllin verði 300 til 600 á ári samanborið við 130 sjúkraflug sem Landhelgisgæslan sinnir árlega.

Aðeins verið að skoða kaup á björgunarþyrlum

Spurður hvort að sjúkraþyrlur hafi komið til umræðu vegna fyrirhugaðra þyrlukaupa segir Pétur að verið sé að skoða björgunarþyrlur en ekki sjúkraþyrlur. „Minni þyrlur koma ekki í staðinn fyrir það sem við erum að óska eftir,“ segir Pétur.

Fram hefur komið í umfjöllun mbl.is í dag og í gær að björgunarþyrlurnar eins og þær sem Landhelgisgæslan hefur nú til umráða eru stærri, langdrægari en sjúkraþyrlur auk þess sem björgunarþyrlurnar eru búnar ýmsum björgunarbúnaði, s.s. nætursjón og toggetu sem ekki er í smærri þyrlunum.

Auðunn Kristinsson, verk­efna­stjóri á aðgerðasviði Land­helg­is­gæsl­unn­ar, gagnrýndi fyrr í dag að fagráð um sjúkraflutninga hefði ekki haft samráð við Landhelgisgæsluna við gerð skýrslunnar og sagði galið að ætla að færa þyrluflug frá Landhelgisgæslunni yfir til annarrar stofnunar í stað þess að byggja upp þyrlurekstur innan Landhelgisgæslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert