Flateyringar safna fyrir Grænland

Flateyringar efna til söfnunar og afhenda framlag sitt landssöfnuninni „Vinátta …
Flateyringar efna til söfnunar og afhenda framlag sitt landssöfnuninni „Vinátta í verki“ vegna hamfaranna í Grænlandi. Ljósmynd/Hrókurinn

Björgunarsveitin Sæbjörg hefur efnt til söfnunar á meðal Flateyringa vegna hamfaranna í Grænlandi. Flateyringar vilja endurgjalda þann stuðning sem Grænlendingar sýndu þeim í kjölfar snjóflóðsins árið 1995.

„Það var það sem dreif okkur af stað alla vega“, segir Ívar Kristjánsson, liðsmaður björgunarsveitarinnar, í samtali við mbl.is. Söfnunin var auglýst á Facebook-síðu Sæbjargar í gærkvöldi en heildarupphæðin verður svo afhent landssöfnuninni „Vinátta í verki“ á sunnudag klukkan 15:00.

„Við viljum ná til allra Flateyringa, hvar sem þeir eru á landinu eða í heiminum,“ segir Ívar og bætir við að öllum sé frjálst að leggja sitt af mörkum. Björgunarsveitin vill með þessu vekja athygli á atburðinum. „Við fengum hjálp þegar við þurftum á að halda og viljum að Grænlendingar njóti okkar stuðnings líka,“ segir Ívar að lokum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert