Hæstiréttur telur að ekki hafi verið sýnt fram á það af lögreglu að Jón Trausti Lúthersson sé undir rökstuddum grun um að hafa orðið Arnari Jónssyni Aspar að bana. Því var gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum felldur úr gildi í gær. Aftur á móti er Sveini Gesti Tryggvasyni gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram.
Jón Trausti er því laus úr gæsluvarðhaldi en Sveinn Gestur sætir gæsluvarðhaldi til 21. júlí vegna gruns um aðild að manndrápi í Mosfellsdal 7. júní.
Samkvæmt gögnum málsins komu þeir Sveinn Gestur og Jón Trausti að heimili Arnars Jónssonar Aspar síðdegis 7. júní í félagi við þrjá karla og eina konu. Eftir að Arnar hafði hent kústi í aðra þeirra bifreiða, sem komumenn voru á, sótti hann járnrör og fór að bifreiðunum. Stigu þá Jón Trausti og Sveinn út úr bifreiðinni og gengu að Arnari. Tók Jón Trausti járnrörið af Arnari en við það féll hinn síðarnefndi í jörðina. Hélt Sveinn Arnari þar í hálstaki í margar mínútur og sló hann ítrekað í andlitið. Var Arnar úrskurðaður látinn klukkan 19:14 um kvöldið.
Fram kom í bráðabirgðaniðurstöðu krufningar að þvinguð frambeygð staða Arnars í langan tíma hafi leitt til mikillar minnkunar öndunargetu, sem að lokum leiddi til stöðutengdrar köfnunar og láts hans. Sagði í niðurstöðunni að við þessar kringumstæður væri hægt að líta á hálstakið sem aðalþáttinn „í því sem leiddi til láts“ Arnars.
Fyrir héraðsdómi í síðustu viku kom fram að lögregla hafi síðustu tvær vikur rætt við fjölda aðila vegna málsins. Samkvæmt framburði þeirra aðila hafi Jón Trausti og Sveinn í félagi við fjórmenningana komið á tveimur bílum að heimili Arnars umrætt sinn.
Á meðan Sveinn gekk í skrokk á Arnari stóð Jón Trausti hjá og hvatti Svein áfram, að sögn vitnis að árásinni. Sama vitni lýsti því að þegar vitnið hafi kallað til tvímenninganna að láta af hegðun sinni hafi hvorugur þeirra brugðist við því og atlagan gegn Arnari haldið áfram þar til ljóst hafi verið að hann hefði misst meðvitund.
Sé því lýst af vitnum að svo hafi virst sem Jón Trausti og Sveinn væru að mynda brotaþola í kjölfar átakanna og hringja einhver símtöl. Vitni hafi síðan lýst því að skömmu áður en lögregla hafi komið á vettvang hafi tvímenningarnir sýnt tilburði til endurlífgunar á Arnari með því að blása í nokkur skipti í hann og ýtt á bringu hans með annarri hendi.
Meðal gagna málsins liggi fyrir nokkur símtöl við Neyðarlínuna þar sem tilkynnt sé um átök og ástand Arnars umrætt sinn. Bæði Sveinn og Jón Trausti eru meðal þeirra sem hringdu í Neyðarlínuna. Í símtali Sveins við Neyðarlínuna tilkynnti hann um að þörf sé á sjúkrabifreið vegna manns sem hafi verið keyrt á. Eftir samtalið við starfsmann Neyðarlínunnar megi heyra hvar Sveinn leggi símann frá sér og byrji að hreyta ókvæðisorðum í Arnar.
Þá liggi fyrir Snapchat-upptökur bæði úr símum Sveins og Jóns Trausta og megi þar sjá að báðir hafi þeir tekið upp myndband af Arnari þar sem sjá megi hann liggja hreyfingarlausan, blóðugan og bláan í framan. Heyra megi á upptökunum að þeir tali á niðrandi hátt til Arnars og sömuleiðis heyrist Jón Trausti segja að svona fari fyrir þeim sem ráðist að sér.
Bæði Sveinn og Jón Trausti neita sök og kannist ekki við hafa veist að Arnari með ofbeldi líkt og vitni hafa lýst. Þeir segjast hafa komið að heimili Arnars til þess að sækja þangað garðverkfæri sem hafi verið eign Sveins.
Arnar hafi hins vegar að ástæðulausu ráðist að þeim vopnaður kústskafti og skemmt bifreiðar þeirra og í framhaldi hafi hann veist að þeim með járnröri sem þeir hafi séð sig knúna til að stöðva hann með. Í framhaldi hafi þeir haldið Arnari í tökum þar til þeim hafi verið ljóst að hann væri meðvitundarlaus en þá hafi þeir hafið endurlífgun á honum þar til lögreglan hafi komið á vettvang.