„Hjálmar Sveinsson hefur fullyrt í viðtölum að nagladekk slíti götum 60-100 sinnum meira en venjuleg dekk. Þar er Hjálmar að vísa í rannsókn frá árunum í kringum 1990,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, í aðsendri grein sem birt er í Morgunblaðinu, en samkvæmt niðurstöðum rannsóknar frá því í fyrra er slit vegna nagladekkja einungis 20 sinnum meira en vegna bíla sem ekki eru á nöglum.
Þá bendir Özur einnig á að árið 2009 hafi VTI-stofnunin í Svíþjóð, sem sérhæfir sig í rannsóknum og þróun innan samgöngugeirans á heimsvísu, metið hvaða áhrif það hefði á umferðaröryggi þar í landi ef notkun á nagladekkjum á landsvísu færi úr 70% í 20%. Niðurstaðan var sú að þá „myndi tilkynningum um slys fjölga um 140,3, dauðsföllum um 4,4 og alvarlega slösuðum um 33 einstaklinga yfir vetrarmánuðina“.