Hefja framkvæmdir aftur á morgun

Mótmæli íbúa í nágrenninu urðu til þess að komið var …
Mótmæli íbúa í nágrenninu urðu til þess að komið var í veg fyrir að framkvæmdir héldu áfram á Miklubraut við Rauðagerði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framkvæmdir við gerð forgangsakreinar fyrir Strætó, hljóðmön og hjólastíga á Miklubraut við Rauðagerði hefjast aftur á morgun. Framkvæmdir hófust þann 14. júní en þann sama dag tókst íbúum í nágrenninu að stöðva framkvæmdirnar.

Málið hefur verið á viðkvæmu stigi að sögn Róberts Guðmundar Eyjólfssonar, verkefnisstjóra framkvæmdarinnar, en til stendur að hefja framkvæmdir að nýju á morgun.

„Þetta er á viðkvæmum stað en við hyggjumst byrja framkvæmdir á morgun,“ segir Róbert í samtali við mbl.is. Spurður hvort eitthvað hafi breyst varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir síðan íbúar gripu til sinna ráða um miðjan mánuð segir Róbert svo ekki vera. Framkvæmdum verði hagað með sama hætti og til stóð en þær hafa verið í bið síðan.

„Málið er það að íbúarnir ætluðu sér að setja á þetta lögbann en það hefur ekki gerst,“ segir Róbert.  

Ásamt því að leggja göngu- og hjóla­stíg ráðger­ir Reykja­vík­ur­borg að bæta við strætóak­rein, reisa hljóðmön og hefja fram­kvæmd­ir í tengsl­um við Borg­ar­línu. Samkvæmt heimildum mbl.is boðuðu íbúar fulltrúa Reykjavíkurborgar á sátta- og samningsfund í gærkvöldi en ekki liggur fyrir hvað kom út úr fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert